Fara í efni
Íþróttir

Jaðarsvöllur aldrei betri á þessum árstíma

Gunnar Gunnarsson, Stefán Jónsson og Heimir Finnson bíða rólegir eftir sínum rástíma, en spenntir að byrja.

Jaðarsvöllur hefur aldrei litið svona vel út svona snemma sumars, að minnsta kosti ef horft er til nokkurra undanfarinna ára. Þetta sögðu þeir Gunnar Gunnarsson, Heimir Finnsson og Stefán Jónsson sem voru að búa sig undir teighögg á fyrstu braut síðdegis í gær þegar blaðamaður frá Akureyri.net kíkti við á golfvellinum til að kanna aðstæður. Í gær var fyrsti dagur fullrar opnunar á vellinum og rástímar fullsetnir, kylfingar óþreygjufullir að komast af alvöru af stað í þessu skemmtilega og vinsæla sporti. 

Steindór Kr. Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA og vallarstjóri Jaðarsvallar, segir það rétt að Jaðarsvöllur komi einstaklega vel undan vetri þetta árið. „Það sem er frábrugðið öðrum árum er hversu jafnt veðurfar eða hitastig var í raun. Lítið var um umhleypingar í desember og janúar sem hafa skapað vandamál fyrir okkur reglulega vegna klakamyndunar á flötunum okkar. Nú í ár var einnig óvenju heitt í febrúarlok og fór í raun allur snjór og bleyta þannig völlurinn var opnaður í febrúar og spilað fyrstu daga mars,“ segir Steindór.

Hann segir vallarstarfsmenn fylgjast vel með vellinum yfir vetrarmánuðina og á því hafi engin breyting orðið í ár. Ef upp koma aðstæður þar sem klaki hafi myndast sé farið í að blása snjó af flötunum og jafnvel brjóta hann eftir ákveðinn tíma. „Þessi vinna undanfarin ár hefur gefið okkur mikla reynslu og þekkingu sem skilar sér í bættum velli á vorin.“

Lokahnykkurinn á undirbúningi sumarsins var á mánudag þegar klúbburinn stóð fyrir vinnudegi og félagsmenn mættu til að gera klárt fyrir sumaropnunina, og svo aftur daginn eftir og nú er allt komið á fullt, kylfingar fylla rástímana og völlurinn væntanlega bara betri og betri með hverri vikunni sem líður.

„Sumarið leggst mjög vel í okkur, mikil eftirspurn eftir að ganga í klúbbinn og mikið bókað inn í sumarið af gestum. Mótin okkar eru mjög vinsæl og uppbókað í þau stærstu. Ávallt er einhver vinna við völlinn að bæta hann og laga. Nú í vor er verið að taka í gagnið sjálfvirkar sláttuvélar eða slátturóbóta eins og þeir eru kallaðir. Eins er verið að setja upp sjálfvirka boltatínsluvél þannig framundan er afar spennandi sumar í vændum," segir Steindór Kr. Ragnarsson.


Flötin á 18. braut lítur vel út, eins og reyndar völlurinn allur.


Stefán Jónsson gerir sig kláran í sitt fyrsta högg í sumar, eða að minnsta kosti það fyrsta eftir fulla opnun vallarins sem var í gær.


Gunnar Gunnarsson einbeittur að finna réttu stellinguna áður en sveiflan hefst.


... og svo er sveiflað ...


Sveiflan hafin og Heimir Finnsson klár í fyrsta höggið.