Fara í efni
Íþróttir

Þáttaröð Rakelar um íþróttalíf á Akureyri

Íþróttalíf á Akureyri er ótrúlega fjölbreytt og umfangsmikið og nú hefur sjónvarpsstöðin N4 gert þáttaröð um þennan þátt bæjarlífsins. Þættirnir eru í umsjá Rakelar Hinriksdóttur, fyrrverandi knattspyrnukonu í Þór/KA, og gerðir í samstarfi við Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbæ.

„Í aðeins 19.000 manna bæjarfélagi er í boði að æfa rúmlega 40 íþróttagreinar. Í fimm þáttum köfum við ofan í íþróttalíf bæjarins, hittum fjölskyldur sem æfa allskonar íþróttir út um allar trissur - prófum íþróttagreinar, allt frá listhlaupi á skautum til pílu og rafíþrótta, tökum áskoranir við atvinnuíþróttamenn og kynnumst íþróttalífi bæjarins á lifandi hátt,“ segir Rakel við Akureyri.net. „Í fyrsta þættinum heimsækjum við fjölskyldu í Barmahlíð í Þorpinu. Foreldrarnir, Elma og Siggi, eru á kafi í hlaupum og útivist og krakkarnir fjórir stunda blak, fótbolta og handbolta, og hafa öll verið í skíðaíþróttum.“

Rakel spreytir sig á ýmsu í þáttunum. Annað kvöld reynir hún til dæmis að skora hjá markmanni Íslandsmeistara SA Víkinga í íshokkí, þrátt fyrir að hafa ekki farið á skauta í 20 ár. „Píludeild Þórs tekur vel á móti okkur í glæsilegri aðstöðu þeirra í Laugargötu og svo sjáum við hvort að ekki sé hægt að sigra Guðmund Hauk, formann spaðadeildar KA, í tennis! Þetta verða hressir og skemmtilegir þættir, nóg af gleði, hreyfingu og lifandi viðtölum,“ segir Rakel. 

Fyrsti þátturinn verður sýndur annað kvöld, miðvikudagskvöld, klukkan 20.30 á N4