Fara í efni
Íþróttir

Íslendingur aldrei jafn hátt á heimslista

Íslendingur aldrei jafn hátt á heimslista

Anna María Alfreðsdóttir úr Íþróttafélaginu Akri er ofar á heimslista Alþjóða bogfimisambandsins en nokkur Íslendingur hefur komist áður. Hún er önnur hæst af Norðurlandabúum á heimslistanum.

Heims- og Evrópulisti Alþjóða bogfimisambandsins, World Archery, var uppfærður í gær eftir heimsbikarmótið í París þar sem Anna María var á meðal keppenda. Hún er aðeins 19 ára en er nú í 60. sæti á heimslista og 30. sæti á Evrópulista. Það er hæsta sæti á heims- og Evrópulista sem Íslendingur hefur náð í íþróttinni hingað til, sem fyrr segir. Á vef Bogfimisambands Íslands segir að líklegt megi telja að Anna María verði fyrsti Íslendingurinn til þess að komast upp í 50. sæti á heimslistanum.

Anna byrjaði mjög vel á þessu ári þegar hún varð í 4. sæti á Evrópumóti innandyra í flokki 21 árs og yngri sem fram fór í Slóveníu í febrúar. Hún varð síðan í 3. sæti á Veronicas Cup í Slóveníu í maí í fullorðinsflokki. Þetta voru tvö fyrstu alþjóðlegu mótin hennar. Á EM fullorðinna utandyra í München í júní endaði hún í 17. sæti og loks í 33. sæti á heimsbikarmótinu í París sem er nýlokið. 

Slegin út með minnsta mun

„Á EM og heimsbikarmótinu var Anna slegin út í lokakeppni með naumum mun á móti keppendum frá Kóreu og Tyrklandi. Kórea og Tyrkland eru einu tvær þjóðirnar sem unnu til gullverðlauna á síðustu Ólympíuleikum og meðal sterkustu bogfimiþjóða í heiminum,“ segir í frétt á vef Bogfimisambandsins.

Anna er næst hæst Norðurlandabúa á heimslista í trissuboga kvenna og er á hraðri uppleið.  Alls eru 12 Norðurlandabúar meðal 300 efstu á heimslista í trissuboga kvenna, af þeim 12 eru sex Íslendingar. Ísland er með annað sterkasta trissubogalið kvenna á Norðurlöndum, í 30. sæti á heimslista og 13. sæti á Evrópulista á eftir fyrrum heims- og Evrópumeisturum Danmerkur sem verma 17. sæti á heimslista og 9. sæti á Evrópulista eins og staðan er í dag.

Aðeins fjórir Norðurlandabúar eru á meðal 100 efstu á heimslista kvenna í keppni með trissuboga eru:

  • 1. Tanja Gellenthien – Danmörku (8. sæti á heimslista)
  • 2. Anna María Alfreðsdóttir – Íslandi (60. sæti)
  • 3. Natasha Stutz – Danmörku (85. sæti)
  • 4. Erika Damsbo - Danmörku (91. sæti)

Ekki á HM í Kólumbíu

Á vef Bogfimisambandsins segir að gert sé ráð fyrir að Anna taki þátt í tveimur landsliðsverkefnum ungmenna til viðbótar það sem eftir er af keppnistímabilinutímabilinu 2022 þar sem hún stefnir á að vinna til verðlauna. „En það mun ekki hafa áhrif á stöðu Önnu á heimslista þar sem ekki eru gefin stig á heimslista fyrir þau mót. Stig á heimslista eru aðeins gefin til þeirra íþróttamanna sem komast í topp 64 sæti á alþjóðlegum stórmótum í opnum flokki (fullorðinna) s.s. HM/EM, heims- og Evrópubikarmótum og þau stig gilda í 2 ár,“ segir á vef Bogfimisambandsins.  „Aðeins eitt mót er eftir af þessu ári sem gefur stig á heimslista sem er heimsbikarmótið í Medellin Kólumbíu, en ólíklegt er að það hafi mikil áhrif á stöðu Önnu á heimslista þó að hún sé ekki skráð til keppni þar vegna kostnaðar ferðalagsins. Einhverjar líkur eru á því að Anna muni hækka eitthvað til viðbótar á heimslista á þessu ári þegar að úrslit eldri alþjóðlegra stórmóta falla úr gildi.“