Fara í efni
Íþróttir

Arna, Ísfold og Jakobína semja við Þór/KA

Andri Hjörvar Albertsson, þjálfari Þórs/KA, Arna Kristinsdóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir. Ljósmynd: Páll Jóhannesson.

Þrjár ungar fótboltakonur skrifuðu í gær undir leikmannasamning við Þór/KA í fyrsta skipti; Arna Kristinsdóttir, sem er tvítug, og þær Ísfold Marý Sigtryggsdóttir og Jakobína Hjörvarsdóttir, sem báðar verða 17 ára á árinu.

Arna hefur leikið með Hömrunum í B og C-deild Íslandsmótsins undanfarin ár, en Jakobína og Ísfold Marý hafa báðar verið viðloðandi meistaraflokk þrátt fyrir ungan aldur; spiluðu fyrst með meistaraflokki Þórs/KA í efstu deild sumarið 2019, Jakobína á að baki 16 leiki með liðinu í efstu deild og bikarkeppni en Ísfold Marý sjö leiki. Hún lék í fyrrasumar aðallega með Hömrunum í 2. deild en kom þó við sögu í tveimur leikjum Þórs/KA í efstu deild.

Arna samdi til þriggja ára, Ísfold og Jakobína í tvö ár.