Fara í efni
Íþróttir

Hvorki gekk né rak hjá KA og Keflavík – MYNDIR

Hallgrímur Mar Steingrímsson skallar framhjá Keflavíkurmarkinu í seinni hálfleik. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í Bestu deildinni í knattspyrnu í gær, eins og Akureyri.net greindi frá, á Greifavellinum sunnan við KA-heimilið – Greifavelli 2. KA-menn náðu sér ekki jafn vel á strik og í fyrri leikjunum tveimur í deildinni, voru raunar töluvert frá sínu besta; fengu að vísu þokkaleg færi til að skora og það gerðu gestirnir einnig, en boltinn gekk yfirleitt of hægt á milli KA-strákanna til að þeir gætu opnað dyr þaulskipulagðrar varnar Keflvíkinganna.
_ _ _

VÍTI? NEI, RANGSTAÐA
Sveinn Margeir Hauksson komst einn gegn markverði Keflvíkinga, Mathias Rosenörn, á 17. mínútu, lék á hann og sá danski braut á Dalvíkingnum. Þegar dómarinn blés í flautu sína reiknuðu allir með því að hann benti á vítapunktinn en þess í stað rétti hann upp hönd; gaf merki um að Sveinn Margeir hefði verið í rangstöðu þegar boltinn var sendur til hans. 

_ _ _

STEINÞÓR VEL Á VERÐI
Stefán Ljubicic komst í gott færi á 28. mínútu eftir stungusendingu frá Sami Kamel, var einnig gegn Steinþóri markverði og sá var vel á verði eins og alltaf þegar á þurfti að halda í leiknum. Kom út á móti Stefáni á hárréttu augnabliki og varði frá honum.

_ _ _

TVÖ SKOT Í LOKIN
Steinþór varði vel skot Keflvíkingsins Sami Kamel í lok fyrri hálfleiks og andartökum síðar þrumaði Ásgeir Sigurgeirsson yfir Keflavíkurmarkið. Þar með lauk fyrri hluta leiksins.

_ _ _

ÞRUMUSKOT Í ÞVERSLÁ
Hallgrímur Mar Steingrímsson komst næst því að skora þegar hann þrumaði boltanum í þverslá á 60. mín. eftir góðan sprett Færeingsins Pæturs Petersen upp hægri kantinn. Af stönginni hrökk boltinn til Bjarna Aðalsteinssonar en Mathias markvörður varði skot hans vel.

_ _ _

SKALLI FRAMHJÁ
Hallgrímur Mar var aftur á ferðinni á 70. mín. þegar hann skallaði framhjá úr góðu færi eftir fyrirgjöf Þorra Mar Þórissonar.

_ _ _

VÍTI?
KA-menn vildu fá vítaspyrnu a.m.k. tvisvar í leiknum þegar þeir töldu brotið á Hallgrími Mar Steingrímssyni en dómarinn varð í hvorugt skiptið við kröfu þeirra.

_ _ _

ÍVAR FANNST VANTA „FJÖR“ Í LEIKINN
KA-manninum Ívari Erni Árnasyni virtist þykja skorta fjör í leikinn þegar lítið var eftir og vissulega var nokkuð til í því! Hann braut hressilega á Jordan Smylie og stuggaði við honum á eftir. Litlu munaði að syði upp úr en Elías Ingi Árnason dómari leysti úr flækjunni með því að áminna Ívar og  Nacho Heras fyrirliða Keflvíkinga.