Fara í efni
Íþróttir

Hunsa ráðstefnu KSÍ vegna launadeilu

Jóhann Ingi Jónsson dómari aðstoðar Jason Daða Svanþórsson leikmann Breiðabliks á fætur í leik gegn KA á Akureyri í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Árleg ráðstefna landsdómara Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ) sem átti að hefjast í Reykjavík í morgun var blásin af. Dómarar tilkynntu KSÍ undir kvöld í gær að þeir myndu ekki mæta og skv. heimildum Akureyri.net er ástæðan sú að ekki hefur verið gengið frá samningi við þá um launamál.

Heimildir herma að í raun beri ekki mikið í milli. Félag deildadómara barst tilboð frá KSÍ á föstudag, dómarar ræddu tilboðið í gærmorgun og í kjölfarið var gerð skoðanakönnun á meðal þeirra um hvernig bregðast ætti við. Í hópnum eru um 50 dómarar og samþykkti meirihluti þeirra að félagsmenn skyldu ekki mæta á ráðstefnuna og lýsa þannig óánægju með stöðu mála.

Ekki er eining í hópi dómara með ákvörðunina; sumum þótti óþarfi að grípa til svo rótttækrar aðgerðar en meirihlutinn réði. Fullyrt er við Akureyri.net að málið leysist fljótlega og ekki muni koma til þess að leikir falli niður; dómarar muni mæta í alla leiki og sinna störfum sínum með hefðbundnum hætti.