Fara í efni
Íþróttir

Hulda í einn virtasta háskóla vestanhafs

Hulda Ósk á fleygiferð með boltann í leik gegn Val í fyrrasumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Hulda Ósk Jónsdóttir, knattspyrnukona úr Þór/KA, heldur til náms í Notre Dame háskólanum í Indiana síðsumars og mun leika með liði skólans. Hulda, sem er 24 ára, útskrifast úr sálfræði frá Háskólanum á Akureyri í sumar og fer í meistaranám í stjórnun í Indiana.

Notre Dame er einn virtasti háskóli Bandaríkjanna og mikill íþróttaskóli. Kvennalið skólans hefur þrívegis orðið bandarískur háskólameistari í knattspyrnu, síðast árið 2010.

Hulda Ósk sagði við Akureyri.net í morgun að það hafi lengi verið draumur sinn að fara til náms í bandarískum háskóla og leika þar fóbolta. „Þetta er með flottari skólum í Bandaríkjunum og með mjög mikla sögu,“ segir hún. „Strax eftir áramót fór ég að hugsa um hvað væri best að gera, ég talaði við nokkra skóla en leist best á þennan. Þetta er mjög spennandi.“

Hulda Ósk, sem er frá Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu, hóf ferilinn með Völsungi og hefur líka leikið með KR. Hún á um 200 leiki að baki með meistaraflokki, þar af tæpa 160 á Íslandsmóti, bikarkeppni og Evrópukeppni, lang flesta með Þór/KA. Hún lék á sínum tíma 29 sinnum með yngri landsliðunum og gerði sex mörk.

„Hulda er sérlega kraftmikill sóknarmaður sem leikið hefur á hæsta stigi á Íslandi í nokkur ár. Við gerum ráð fyrir að hún setji strax mark sitt á liðið,“ er haft eftir Nate Norman, aðalþjálfara kvennaliðs Notre Dame, á heimasíðu skólans. „Hún er mjög hættuleg í stöðunni ein gegn einni, leikmaður sem skapar fjölda marktækifæra fyrir samherjana og sjálfa sig. Hún er mjög spennandi leikmaður.“

  • Hulda Ósk skrifar undir samning við Notre Dame háskólann.