Fara í efni
Íþróttir

Hræðileg vonbrigði hjá KA/Þór

Framarar óska leikmönnum KA/Þórs til hamingju eftir bikarúrslitaleikinn á síðasta ári. Dæmið snerist…
Framarar óska leikmönnum KA/Þórs til hamingju eftir bikarúrslitaleikinn á síðasta ári. Dæmið snerist heldur betur við í dag. Ljósmynd: Alma Skaptadóttir.

KA/Þór átti aldrei möguleika gegn frábæru liði Fram í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta í dag. Framarar sigruðu með átta marka mun, 31:23, eftir að hafa mest náð 11 marka forystu. Staðan í hálfleik var 17:11. KA/Þór er því úr leik en Fram mætir annað hvort Val eða ÍBV í úrslitaleiknum á laugardag.

Nánast ekkert gekk upp hjá KA/Þór í dag, því miður, og því fór sem fór.

Stelpurnar náðu sér engan vegin á strik í sókninni, sem varð til þess að Framarar gátu miskunnarlaust beitt einu sínu hættulegasta vopni, hraðaupphlaupum. Markvarslan hjá KA/Þór var góð fyrstu mínúturnar en síðan mjög lítil á meðan Hafdís Renötudóttir var frábær í marki Fram. Þá gekk Stelpunum okkar mjög illa að stilla saman strengi í vörninni og hraðaupphlaup þeirra mátti því telja á fingrum annarar handar.

Stelpurnar okkar urðu ekki lélegar í handbolta á einni nóttu. Tapið í dag er því enginn heimsendir, þótt það sé sárt. Slysin gera ógjarnan boð á undan sér, þessi bikar verður ekki geymdur á Akureyri næsta árið, en nóg er eftir af leiktíðinni. Gott er að hafa hið fornkveðna í huga: Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði og leita hefnda!

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.