Fara í efni
Íþróttir

Hólmfríður og Matthias meistarar í svigi

Þrír fyrstu í sviginu. Frá vinstri: Jón Erik Sigurðsson (2), Íslandsmeistarinn Matthias Kristinsson og Björn Davíðsson (3).

Akureyringar blönduðu sér ekki í toppbaráttuna í fyrstu alpagreininni á Skíðamóti Íslands í gær. Þá var keppt í svigi. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir úr Ármanni og Matthias Kristinsson úr Skíðafélagi Ólafsfjarðar urðu Íslandsmeistarar. Svigkeppnin fór fram á Dalvík.

Fjóla Katrín Davíðsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar, varð í 7. sæti og Akureyringurinn Viðar Guðjónsson í 9. sæti.

Keppnin í kvennaflokki var spennandi. Að lokinni fyrri ferð var Elín Van Pelt, Víkingi, í fyrsta sæti og Jóhann Lilja Jónsdóttir, SKÍS, í öðru sæti. Hólmfríður Dóra var í þriðja sætinu en þó einungis 0,57 sekúndu á eftir Elínu. Hólmfríður Dóra átti virkilega góða seinni ferð og náði besta tímanum, sem dugði til sigurs. Elín Van Pelt endaði í öðru sæti og Jóhann Lilja í því þriðja.

Í karlaflokki sigraði Matthias Kristinsson frá Skíðafélagi Ólafsfjarðar. Matthias var með besta tíman í báðum ferðum og sigraði með 0,75 sekúndna mun. Þess má geta að Matthias er sonur Kristins Björnssonar, sem gerði garðinn frægan í heimsbikarnum á árum áður. Einnig er vert að geta þess að nú eru liðin 20 ár síðan Kristinn varð síðast Íslandsmeistari. Í öðru sæti var Jón Erik Sigurðsson, Fram, og í þriðja sæti var Björn Davíðsson úr Breiðablik.

Elín Elmarsdóttir Van Pelt og Matthias Kristinsson sigruðu í 16-17 ára flokkum og Björn Davíðsson í 18-20 ára flokki drengja, en hjá stúlkunum náði engin að ljúka keppni.

Kvennaflokkur
1. Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir - ÁRM
2. Elín Elmarsdóttir Van Pelt - VÍK
3. Jóhann Lilja Jónsdóttir – SKÍS

Karlaflokkur
1. Matthias Kristinsson - SÓ
2. Jón Erik Sigurðsson - Fram
3. Björn Davíðsson – BBL

18-20 ára drengir
1. Björn Davíðsson - BBL
2. Gauti Guðmundsson - KR
3. Jón Hákon Garðarsson - BBL

16-17 ára stúlkur
1. Elín Elmarsdóttir Van Pelt - VÍK
2. Jóhanna Lilja Jónsdóttir - SKÍS
3. Signý Sveinbjörnsdóttir - ÍR

16-17 ára drengir
1. Matthias Kristinsson - SÓ
2. Jón Erik Sigurðsson - Fram
3. Stefán Gíslason - ÍR

Þrjár fyrstu í sviginu. Frá vinstri: Elín Elmarsdóttir Van Pelt (2), Íslandsmeistarinn Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir og Jóhann Lilja Jónsdóttir (3).