Fara í efni
Íþróttir

Hitabylgja úti, við suðumark inni

Þórður Tandri Ágústsson „skorar“ fyrir Þór þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum en af einhverjum …
Þórður Tandri Ágústsson „skorar“ fyrir Þór þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum en af einhverjum ástæðum flautuðu dómararnir og Þórsarar tóku aukakst eftir að leiktíminn var liðinn! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA og Þór gerðu jafntefli, 19:19, í síðustu umferð Olís deildar Íslandsmótsins í handbolta í kvöld í stórmerkilegum leik. KA-menn, sem voru á heimavelli, áttu í harðri baráttu um að ná sem bestu sæti fyrir úrslitakeppnina, en Þórsarar voru fallnir þannig að þeir léku bara upp á heiðurinn. Úrslitin þýða að KA endar í 6. sæti deildarinnar og mætir Val í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, átta liða úrslitunum.

Akureyrarfélögin hafa oft mæst í skrautlegum kappleikjum í gegnum áratugina en þessi fer án nokkurs vafa í sögubækurnar. Til dæmis kom fyrsta markið eftir 10 mínútur! Skyldi það vera met? Karolis Stropus braut ísinn fyrir Þór en þegar 10 mínútur og 55 sekúndur voru liðnar jafnaði Árni Bragi Eyjólfsson metin, 1:1. Hann var markahæsti maður KA í leiknum eins og svo oft áður, og eftir leikinn kom í ljós að hann er markakóngur deildarinnar í vetur, gerði 163 mörk – 7,4 að meðaltali í leik.

Sumir hitamæla bæjarins sýndu yfir 20 gráður í dag og í KA-heimilinu var hitinn við suðumark; baráttan gríðarleg inni á vellinum og í lokin var einum stuðningsmanna Þórs vísað úr húsi fyrir að velta auglýsingaskilti um koll. Hann reiddist mjög þegar „mark“ Þórðar Tandra Ágústssonar af línunni 10 sekúndum fyrir leikslok stóð ekki heldur fengu Þórsarar aukakast! Svo virtist sem dómararnir hafi metið það svo að Þórður væri lentur áður en hann skaut en það var rangt hjá þeim svartklæddu. Enn standa því flestir á gati yfir dóminum.

Leiktíminn rann út og Þórsarar áttu aukakast. Karolis Stropus var falið það verkefni að skjóta, hann náði að koma boltanum framhjá varnarvegg KA-manna en einnig framhjá markinu.

Ekki var skorað fyrr en eftir 10 mínútna leik, sem fyrr segir. Bæði var að mönnum voru heldur mislagðar hendur og markverðirnir fóru á kostum; Jovan Kukobat hjá Þór, sem varði alls 17 skot í leiknum, og KA-maðurinn Nicholas Satchwell, sem varð alls 13 skot. Jovan varði 47% þeirra skota sem hann fékk á sig, sem er frábært, en Nicholas 43% sem er líka mjög gott.

Þórsarar höfðu ekki að neinu að keppa í kvöld, nema að leggja erkióvininn, sem er auðvitað ekkert smámál í bænum. Sennilega hefur enginn, eða því sem næst, búist við jöfnum leik heldur því að KA ynni auðveldan sigur. En sú varð aldeilis ekki raunin. Ef til vill voru heimamenn værukærir í ljósi stöðunnar en sigur hefði getað tryggt þeim fjórða sæti og þar með seinni leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar á heimavelli. Það skiptir svo sem ekki sköpum, en altjent ætluðu þér sér að sjálfsögðu sigur. 

KA komst fimm sinnum yfir í leiknum; 6:5, 7:6 og 8:7 í fyrri hálfleik og svo 16:15 og 17:16 þegar 10 mínútur voru eftir. Annars voru Þórsarar yfirleitt einu til tveimur mörkum yfir. Og voru í raun ótrúlega óheppnir að vinna ekki glæsilegan sigur; ekki er hægt að fullyrða að „mark“ Þórðar Andra í lokin hefði tryggð Þórsliðinu bæði stigin en líkurnar á því eru að sjálfsögðu afgerandi. Í stóra samhenginu skiptir það í sjálfu sér ekki máli, en í rimmu eins og þessari skiptir það marga máli hvernig fer.

Dómararnir, Haraldur Þorvarðarson og Ómar Örn Jónsson, stóðu sig vel í heildina en gerðu afdrifarík mistök á lokasekúndunum.

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum.