Fara í efni
Íþróttir

Hinrik tryggði síðasta sigur - á Melavelli!

Umjöllun dagblaðsins Vísis um leik KR og KA á Melavellinum.
Umjöllun dagblaðsins Vísis um leik KR og KA á Melavellinum.

Sigur KA á KR í efstu deild Íslandsmótsins í fótbolta í gærkvöldi var langþráður. KA-menn höfðu ekki unnið KR á útivelli í deildinni í 40 ár, og aldrei fagnað sigri á velli félagsins í Vesturbænum.

Það var fimmtudaginn 21. maí 1981 sem KA vann KR 1:0 í 2. umferð 1. deildar Íslandsmótsins – á Melavellinum, þeim goðsagnakennda malarvelli á horni Hringbrautar og Suðurgötu, þar sem Þjóðarbókhlaðan er nú.

Hinrik Þórhallsson gerði eina mark leiksins þegar fimm mínútur voru eftir. „Þau vilja stundum verða dýr þessi mörk, en þetta var þó í dýrara lagi,” hafði Vísir eftir Hinriki þar sem hann lá alblóðugur í sjúkraherbergi Melavallar eftir leikinn. Um leið og hann vippaði boltanum yfir Stefán Jóhannsson, markvörð KR og í netið, rákust þeir harkalega saman með þeim afleiðingum að Hinrik nefbrotnaði.

Heimaleikir Reykjavíkurfélaganna fóru enn fram í Laugardalnum 1981, en áður en grasið þar var tilbúið snemma sumars fóru leikirnir fram á Melavellinum.