Fara í efni
Íþróttir

„Hef sýnt þeim alvöru Örnu Sif“

Arna Sif fagnar með liðsfélögunum eftir að hún skoraði með glæsilegum skalla gegn Celtic.
Arna Sif fagnar með liðsfélögunum eftir að hún skoraði með glæsilegum skalla gegn Celtic.

Arna Sif Ásgrímsdóttir, fyrirliði knattspyrnuliðs Þórs/KA sem leikur sem lánsmaður með Glasgow City í vetur, skoraði í gær þegar liðið vann Spartans 3:1 í skosku úrvalsdeildinni. Arna gerði fyrsta mark leiksins með föstum skalla á 22. mínútu en fór af velli aðeins tveimur mínútum seinna vegna meiðsla, en hún er segir þau ekki alvarleg. Skynsemin hafi einfaldlega ráðið, enda toppslagur um næstu helgi.

Íslandsmótið hefst á morgun með leik ÍBV og Þórs/KA. Arna missir af þremur fyrstu leikjum mótsins, en hlakkar mikið til að koma heim og taka þátt í baráttunni.

Góð ákvörðun að fara til Skotlands

„Það hefur gengið hrikalega vel og mér hefur liðið ótrúlega vel hérna,“ sagði Arna Sif við Akureyri.net í morgun, um dvölina í Glasgow. „Ég hef eytt miklu púðri í að vinna í sjálfri mér, ekki síst andlegu hliðinni, og ég held að ég sé að uppskera núna. Mér finnst ég hafa sýnt þeim alvöru Örnu Sif. Það var gott fyrir mig að koma hingað og geta eytt meiri tíma og orku í mig. Það er líka svo gott fyrir mann að skipta um umhverfi af og til og þurfa að takast á við nýjar áskoranir. Ég var ekkert alveg viss um að ég ætti að fara aftur út í atvinnumennsku, af ýmsum ástæðum, en ég er mjög glöð að hafa tekið þá ákvörðun að koma hingað og var bara heppin með þetta lið og fólkið í kringum mig. Það tóku allir mjög vel á móti mér.“

Hún segist mjög þakklát fyrir tímann í Skotlandi. „Ég hef fengið að spila mikið og var óvænt gerð að fyrirliða í tveimur leikjum sem er mikill heiður. Þau hafa mikla trú á mér sem er frábær tilfinning og fyrir það er ég mjög þakklát.“

Spennt fyrir sumrinu

„Ég er búin að vera glíma við kálfameiðsli af og til síðustu þrjú ár. Í gær fékk ég smá tak í annan kálfann en það er ekkert alvarlegt. Ég vildi bara vera skynsöm og fara útaf frekar en að gera þetta verra. Það er stórleikur um næstu helgi, sem er minn síðasti leikur fyrir Glasgow City,“ segir Arna. Liðið mætir þá Rangers, sem er þremur stigum á eftir Glasgow þannig að með sigri tryggir lið Örnu sér í raun meistaratitilinn, því þessi tvö lið eru langbest.

„Það væri góð tilfinning að skilja við liðið á toppnum með sex stiga forskot á Rangers. Ég ætla gera allt sem ég get til að það verði svoleiðis. Svo er náttúrlega heilt Íslandsmót sem bíður mín með stelpunum mínum heima. Ég er mjög spennt fyrir því og ætla að vera 100% klár í það. Ég hef mikla trú á mínu liði í sumar og held að þetta verði skemmtilegt mót í sumar,“ segir Arna Sif.