Handbolti: Svekkjandi tap hjá KA/Þór

KA/Þór heimsótti ÍR í 5. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í gærkvöld. Eftir jafnan og spennandi leik virtist KA/Þór ætla að sigla sigrinum í höfn en á lokakaflanum tóku heimakonur upp á því að raða inn mörkum og stela sigrinum. Lokatölur 30:29 ÍR í vil.
ÍR byrjaði betur og var með yfirhöndina framan af fyrri hálfleik en KA/Þór náði að jafna um miðjan hálfleikinn og jafnt var á öllum tölum fram að hléi. Tinna Valgerður Gísladóttir skoraði síðasta mark hálfleiksins úr vítakasti og KA/Þór var 17:16 yfir í hléi.
Eitt mark hjá KA/Þór síðustu tíu mínúturnar
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði og liðin skiptust á um að skora. En upp úr miðjum hálfleiknum fóru norðanstúlkur að sigla fram úr og þegar um tíu mínútur voru til leiksloka var KA/Þór komið með fjögurra marka forskot, 28:24. En þá vöknuðu ÍR-ingar heldur betur til lífsins; skoruðu sex mörk á jafnmörgum mínútum og skyndilega voru þær komnar með tveggja marka forystu. Susanne Denise Pettersen minnkaði muninn strax í eitt mark og ennþá rúmar fjórar mínútur eftir af leiknum. Hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum þar sem eftir lifði leiks og KA/Þór þurfti því að sætta sig við svekkjandi tap, 30:29.
Liðið er nú í 3.-4. sæti deildarinnar, ásamt ÍR-ingum, með sex stig eftir fimm leiki. Næsti leikur liðsins verður gegn Fram á útivelli, laugardaginn 25. október.
Mörk KA/Þórs: Tinna Valgerður Gísladóttir 7 (3 víti), Susanne Denise Pettersen 5, Trude Blestrud Hakonsen 5, Anna Þyrí Halldórsdóttir 4, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 3 (1 víti), Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 15 (1 víti), Bernadett Leiner 0.
Mörk ÍR: Sara Dögg Hjaltadóttir 11 (6 víti), Vaka Líf Kristinsdóttir 8, Katrín Tinna Jensdóttir 4, Matthildur Lilja Jónsdóttir 3, Dagbjört Ýr Ólafsdóttir 2, Ásthildur Bertha Bjarkadóttir 1, Oddný Björg Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Sif Hallgrímsdóttir 5, Oddný Björg Stefánsdóttir 4 (1 víti).