Fara í efni
Íþróttir

Handboltaskór Harðar komnir upp í hillu!

Hörður Fannar þakkir fyrir sig eftir síðasta leikinn með EHV Aue í Þýskalandi á sínum tíma.

Handboltamaðurinn Hörður Fannar Sigþórsson hefur lagt skóna á hilluna eftir 21 keppnistímabil í meistaraflokki. Hann hefur verið búsettur í Færeyjum nær óslitið í um það bil átta ár og síðasti leikurinn var á laugardaginn. KÍF, lið Harðar, tapaði þá naumlega fyrir Neistanum í leik um bronsverðlaun í færeysku deildinni. Annar Þórsari, Arnar Gunnarsson, er við stjórnvölinn hjá Neistanum og nældi því í brons á fyrsta vetri í starfi.

„Ákveðin kaflaskil í lífinu! Eftir 21 ár í meistaraflokki, tæpa 440 leiki og yfir 1000 mörk er komið að því að leggja skóna á hilluna. Handboltinn hefur átt allan minn frítíma undanfarin ár og hef ég eignast margar góðar minningar og vini á þessum tíma,“ skrifaði Hörður á Facebook í gær.

Hörður hóf ferilinn hjá Þór en lék einnig með HK í Kópavogi, KA og Akureyri hér heima, hann lék einn vetur með EHV Aue í Þýskalandi og með Kyndli, Klaksvik og KÍF í Færeyjum.

„Árið í Þýskalandi stendur að sjálfsögðu upp úr,“ sagði Höddi við Akureyri.net í gær. „Rúnar Sigtryggs á mikið hrós skilið fyrir að þora að fá mig þangað!“

Hörður hefur verið búsettur í Færeyjum síðan sumarið 2013, nema veturinn 2014 til 2015 þegar hann var í Þýskalandi. Hann segist horfa sáttur um öxl nú þegar ferlinum er lokið. „Já, ég geng sáttur frá borði,“ sagði þessi grjótharði línumaður og varnarjaxl, sem verður 39 ára í sumar.

Þar sem þetta allt byrjaði, skrifaði Hörður Fannar undir þessa mynd á Facbook nýverið. Ungur og upprennandi lekmaður Þórs.

Ekkert gefið eftir frekar en fyrri daginn. Hörður í baráttunni í Færeyjum.