Fara í efni
Íþróttir

Halldór Jóhann annar þjálfara Holstebro

KA-maðurinn Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfyssinga, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Team Tvis Holstebro á Jótlandi í Danmörku. Félagið staðfesti ráðningu Halldórs í morgun. Þetta kemur fram á handboltavef Íslands, handbolti.is.

„Halldór Jóhann mun starfa við hlið Søren Reinholdt Hansen aðalþjálfara Tvis Holstebro og koma í stað Claus Uhrenholt sem hætti um nýliðin mánaðarmót. Samningur Halldórs Jóhanns við Holstebro er til eins árs. Um leið hættir hann þjálfun karlaliðs Selfoss og Þórir Ólafsson tekur við,“ segir í fréttinni. Nánar hér.

Halldór hóf ferilinn í KA og lék lengi með félaginu en eftir að hann sneri sér að þjálfun hefur Halldór m.a. stýrt liðum FH og Fram og þá var hann þjálfari landsliðs Bahrein á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í fyrra. Síðustu tvo vetur hefur hann þjálfað Selfyssinga.