Fara í efni
Íþróttir

Hafdís varð 26. og Silja lenti í 28. sæti á EM

Silja Rúnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir. Skjáskot af vef RÚV.

Hafdís Sigurðardóttir varð í 26. sæti og Silja Rúnarsdóttir 28. sæti í tímatökum á Evrópumótinu í götuhjólreiðum í Þýskalandi í morgun. Báðar eru í Hjólreiðafélagi Akureyrar eins og áður hefur komið fram.

Keppt var í grennd við München; konurnar hjóluðu 24 kílómetra leið þar sem hækkunin var 180 metrar. Silja var ræst fyrst allra og síðan hver af annarri með einnar og hálfrar mínútu millibili.

Sigurvegarinn, Marlen Reusser frá Sviss, kom í mark á 30 mínútum og 59,90 sekúndum. Hafdís var tæpum fjórum mínútum lengur á leiðinni, 34:58,81 mín. og Silja fór vegalengdina á 35:44,78. Alls luku 29 keppninni.