Fara í efni
Íþróttir

Hafdís og Silja keppa á EM í götuhjólreiðum

Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir. Ljósmynd: Ármann Hinrik.

Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir hafa verið valdar til að keppa fyrir hönd Íslands í götuhjólreiðum á Evrópumótinu sem fram fer á Ítalíu snemma í september.

Hafdís keppir í tveimur greinum, tímatöku og hefðbundinni götuhjólakeppni og Silja verður með henni í götuhjólakeppninni. „Hafdís fór á HM síðasta haust og nældi sér þar í dýrmæta reynslu, sem mun án efa koma henni til góða nú. Silja kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í A-flokk kvenna í götuhjólamótum sumarsins, þá sérstaklega þegar hún gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari í sinni fyrstu tilraun. Báðar fóru þær til Svíþjóðar í júlí með HRÍ og kepptu í PostNord U6 Cycle Tour með góðum árangri,“ segir á heimasíðu Hjólreiðafélags Akureyrar.

Götuhjólakeppnin í kvennaflokki verður nokkuð frábrugðin því sem þekkist hér á landi, því hjólaðir verða 8 hringir í 13,2 kílómetra langri braut í borginni Trento. Í hverjum hring er 250 metra hækkun. Í tímatökunni verður svo farinn 22 kílómetra langur hringur með nokkrum kröppum beygjum.

Heimasíða Evrópumótsins

Vefur Hjólreiðasambands Íslands