Fara í efni
Íþróttir

Hafdís og Silja hjóla á EM í dag – beint á RUV

Akureyringarnir þrír sem keppa á EM í götuhjólreiðum, frá vinstri: Silja Jóhannesdóttir, Silja Rúnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir.

Hafdís Sigurðardóttir og Silja Rúnarsdóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar hefja keppni í dag á Evrópumeistaramótinu í götuhjólreiðum sem fram fer í München í Þýskalandi. Bein útsending hefst frá keppninni klukkan 11.50 á RÚV 2.

Í dag er keppt í tímatöku. „Tímatökurnar snúast raunverulega bara um það að þú ert ein, í eigin hugsunum að komast eins hratt og þú mögulega getur. Að halda út tímann og skrúfa púlsinn hátt. Það er bara markmiðið að hjóla eins hratt og maður getur. Það er ekki hægt að setja sér neitt annað markmið,“ sagði Silja m.a. í viðtali við RÚV í gær.

„Maður fer aðeins rólegri inn í þá keppni miðað við götuhjólreiðakeppnina,“ sagði Hafdís. „Í tímatökunum þarf maður bara að gera sitt. Við ættum að vera búin að læra brautina vel, þannig svo er bara að vona að fæturnir séu í standi og svo er bara að gefa allt í þetta,“ sagði Hafdís við RÚV. Hún hefur verið besta hjólreiðakona landsins á þessu ári.

Þriðji fulltrúi Hjólreiðafélags Akureyrar á mótinu, Silja Jóhannesdóttir, bætist í hópinn og keppir ásamt Hafdísi og nöfnu sinni Rúnarsdóttur á sunnudaginn kemur. Bein útsending á RÚV hefst þá klukkan 9.20.

Smellið hér til að sjá frétt RÚV frá því í gær.