Fara í efni
Íþróttir

Hafdís Íslandsmeistari í tímatöku

Hafdís Sigurðardóttir á fleygiferð í keppninni í gærkvöldi. Ljósmynd: Ármann Hinrik
Hafdís Sigurðardóttir á fleygiferð í keppninni í gærkvöldi. Ljósmynd: Ármann Hinrik

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar (HFA) varð Íslandsmeistari í tímatöku í gærkvöldi. Ingvar Ómarsson úr Breiðabliki varð Íslandsmeistari í karlaflokki.

Hjólaðir voru 28 kílómetrar á þar til gerðum tímatökuhjólum; ræst var rétt sunnan við Hrafnagilshverfi og hjólað inn fjörðinn, að gatnamótum Eyjafjarðabrautar vestri og eystri, nokkru sunnan við Melgerðismela.

Hafdís varð Íslandsmeistari með nokkrum yfirburðum, hún hjólaði á 38:40 mínútum eða á rúmlega 41 km meðalhraða. Um einni og hálfri mínútu síðar kom í mark Silja Rúnarsdóttir úr HFA og í þriðja sæti varð Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Ágústa Björnsdóttir úr Tindi.

Konur úr Hjólreiðafélagi Akureyrar hafa verið mjög sterkar það sem af er tímabilinu; norðankonur eru í þremur efstu sætum í bikarmótaröð Hjólreiðasambands Íslands, Hafdís efst þeirra og Íslandsmeistaratitill hennar í gær er punkturinn yfir i-ið á keppnistímabilinu til þessa.

Á laugardaginn fer svo fram Íslandsmótið í götuhjólreiðum þar sem hjólaðir verða 100 km, frá Mývatni til Húsavíkur og til baka. Það verður spennandi að fylgjast með norðlensku keppendunum en núverandi Íslandsmeistari, Silja Jóhannsdóttir úr HFA, reynir að verja titilinn.

 • Ármann Hinrik fylgdist með keppninni í gærkvöldi í gegnum myndavélina. Seinna í dag birtir Akureyri.net glæsilega myndasyrpu Ármanns.

Styrkja þrjár konur

Það er mikilvægt fyrir keppendur í götuhjólreiðum að hafa góða bakhjarla til að standa undir kostnaði sem meðal annars kemur til af þátttöku í mótum og ferðalögum vegna þeirra sem flest fara fram á suðvesturhorninu, segir í tilkynningu frá Hjólreiðafélagi Akureyrar. Þar er vakin athygli á að Spretturinn, Greifinn og Ak-inn hafa gert samstarfssamninga við þrjár bestu götuhjólakonur HFA og munu standa við bakið á þeim á þessu keppnistímabili.

Úrslitin á Íslandsmótinu í tímatöku í gær urðu sem hér segir:

A-flokkur kvenna

 1. Hafdís Sigurðardóttir, HFA :38:40
 2. Silja Rúnarsdóttir, HFA 40:04
 3. Ágústa Edda Björnsdóttir, Tindi 40:05

A-flokkur karla

 1. Ingvar Ómarsson, Breiðabliki 35:06
 2. Eyjólfur Guðgeirsson, Tindi 37:19
 3. Davíð Jónsson, Hjólreiðafélagi Reykjavíkur 37:34

B-flokkur kvenna

 1. Þórdís Rósa Sigurðardóttir, HFA 51:18
 2. Thelma Rut Káradóttir HFA 52:34

B-flokkur karla

 1. Jón Arnar Sigurjónsson, Víkingi 42:40
 2. Sveinn Otto Sigurðsson, HFR 44:00
 3. Erwin van der Werve, HFA 45:06

C-flokkur karla

Kristinn Þráinn V. Kristjánsson, HFA 52:20

U15 (13-14 ára) stúlkur

Hekla Henningsdóttir HFR 32:32

U15 (13-14 ára) drengir

Hrafnkell Steinarr Ingvason HFR 29:25

U17 (15-16 ára) drengir

Ísak Gunnlaugsson 2007 HFR 22:28

Þrjár efstu í gær; frá vinstri: Silja Rúnarsdóttir, sem varð í öðru sæti, Íslandsmeistarinn Hafdís Sigurðardóttir og Ágústa Edda Björnsdóttir, sem varð þriðja.

Hafdís Sigurðardóttir og þeir Markús Gústafsson og Arinbjörn Þórarinsson, fulltrúar Sprettsins, Greifans og Ak-inn.