Fara í efni
Íþróttir

Hafdís á EM: „Hraðinn var bara of mikill“

Akureyringarnir þrír á EM í götuhjólreiðum, frá vinstri: Silja Jóhannesdóttir, Silja Rúnarsdóttir og Hafdís Sigurðardóttir.

Hafdís Sigurðardóttir og Silja Jóhannesdóttir voru meðal 99 keppenda sem ræstu á EM í götuhjólreiðum í München í dag. Hvorug náði að halda sér innan tímatakmarkana og fengu því ekki að ljúka keppni.

Hjólaðir voru 129,8 kílómetrar. Halda þarf í við hópinn til þess að halda sér í keppninni en keppendur eru flaggaðir út vegna tímatakmarkana ef þeir eru meira en 10 mínútum fyrir aftan hópinn. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Ógeðslega erfitt

„Þetta var bara ógeðslega erfitt en gaman. Það var mjög mikilvæg staðsetning sem ég vissi af, ég þurfti að staðsetja mig vel. Ég reyndi mitt allra besta en það kemur sem sagt svona U-beygja inni í miðjum bæ. Ég var illa staðsett og var alveg að stoppa og þar missti ég hópinn og náði honum ekki aftur,“ sagði Silja við RÚV í Þýskalandi.

Hraðinn var bara of mikill

Hafdís segir að hraðinn hafi einfaldega verið of mikill. „Hraðinn var mikill frá upphafi og maður þurfti bara að berjast fyrir hverjum einasta kílómetra. Ég gerði það en því miður dugði það ekki til. Mér leið ágætlega en það var erfitt að halda sig í fremri hlutanum. Það var svo mikil barátta allan tímann. Hraðinn var bara of mikill,“ sagði hún í viðtali við RÚV.

Til stóð að Silja Rúnarsdóttir keppti einnig í gær en hún veiktist og gat því ekki tekið þátt.