Fara í efni
Íþróttir

Hafa áhyggjur af miklu álagi á leikmenn

Andri Snær Stefánsson, Jónatan Magnússon og Þorvaldur Sigurðsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þjálfarar akureyrsku handboltaliðanna þriggja, sem öll leika í efstu deild, hafa miklar áhyggjur af því að álag á leikmenn verði of mikið, haldi HSÍ því til streitu að leikir á Íslandsmótinu verði jafn margir og upphaflega var gert ráð fyrir. Ekki hefur verið leikið síðan í október, og vegna heimsmeistaramótsins í Egyptalandi mun Íslandsmótið ekki byrja á ný fyrr en undir lok janúar. Þórsarar leggja fram tvær róttækar hugmyndir um framhaldið í vetur; í báðum tilfellum að aðeins verði leikin fyrri umferð Íslandsmótsins og síðan átta liða úrslitakeppni og annað hvort ákveðið að ekkert lið falli úr deildinni, og jafnvel verði fjölgað næsta vetur tímabundið, eða að neðstu liðin leiki úrslitakeppni við efstu lið næst efstu deildar, um sæti í Olís deildinni næsta vetur. Bikarkeppnin fari fram eins og ráð sé fyrir gert.

Vilja tvær umferðir, ekki þrjár

„Ég tel það augljóst að besti kosturinn í Olís deild kvenna sé að spila tvær umferðir í stað þriggja umferða eins og lagt var upp með í upphafi. Það myndi þýða að öll liðin ættu eftir að spila 11 deildarleiki sem væri passlegt álag þar sem bikarkeppnin á eftir að spilast auk úrslitakeppni hjá efstu fjórum liðum deildarinnar. Í raun mjög einföld breyting og öll lið spila við hvort annað á heima- og útivelli,“ segir Andri Snær Stefánsson, þjáflari kvennaliðs KA/Þórs við Akureyri.net.

Andri nefnir að á formannafundi hjá HSÍ fyrir skömmu hafi komið fram að enn sé gengið út frá því að hafa deildina áfram í þremur umferðum eftir áramót. „Ef sú hugmynd yrði keyrð í gegn þá eru 18 deildarleikir eftir af tímabilinu, auk bikar- og úrslitakeppni. Það þýðir mikið leikjaálag á stuttum tíma eftir mikið stopp á æfingum fyrir áramót. Það er auðvitað augljóst að það gæti aukið líkur á meiðslum. Miðað við þá umræðu sem ég hef átt við aðra þjálfara þá heyrist mér leikmenn og þjálfarar Olís deildar kvenna séu lang spenntastir fyrir því að spila tvær umferðir eftir áramótin.“

Andri segir að það sé vissulega HSÍ sem taki ákvörðun um framhald deildakeppninnar í vetur „en ég vona innilega að það verði hlustað á þjálfara og leikmenn þegar að því kemur.“

Að því sögðu segir Andri Snær lið sitt gíðarlega spennt að fara aftur stað, þegar deildarkeppnin fer af stað. „Það verður gaman að halda áfram að bera sig saman við hin liðin. Vonandi að það verði í tveggja umferða fyrirkomulagi eftir áramótin.“

Tökum því sem bíður okkar

„Við norðanmenn höfum klárlega okkar skoðanir og sendum inn okkar hugmyndir um að reyna að minnka leikjafjöldann, en það er í höndum HSÍ að taka ákvörðun. Við ætlum að einbeita okkur af því að undirbúa okkur eins vel og hægt er og taka þessu með jákvæðni að vopni,“ segir Jónatan Magnússon, þjálfari karlaliðs KA. „Það er ljóst að það verður mikið leikjaálag og tími fyrir æfingar því minni en við eigum að venjast. Það er óskandi að þegar við byrjum aftur að það verði hægt að hafa áhorfendur á leikjunum því það er svo óskaplega mikið skemmtilegra að spila þegar það eru áhorfendur á vellinum,“ segir Jónatan.

„En sem sagt þá tökum við KA-menn því sem bíður okkar og stefnum ótrauðir á það að gera betur en í fyrra.“

Skynsemin ráði!

Þorvaldur Sigurðsson, annar tveggja þjálfara Þórsliðsins, segir það sem lang mestu máli skipti sé að hugsa um heilsu leikmanna. „Við höfum verið í pásu síðan í október, HSÍ hyggst hefja Íslandsmótið á ný í lok janúar, eftir þriggja og hálfs mánaða hlé og spila heilt Íslandsmót með úrslitakeppni, og bikarkeppnina að auki, eins og ekkert hafi í skorist. Mér finnst það ótrúlegt, og mjög óskynsamlegt; það þarf einmitt að hafa skynsemina að leiðarljósi,“ segir Þorvaldur.

„Það er mat sjúkraþjálfara og styrktarþjálfara okkar, og ég veit að fleiri eru á þeirri skoðun, að óraunhæft sé að keyra heilt mót í gegn á þeim tíma sem áætlaður er. Að álagið á leikmenn verði of mikið og hætta á meiðslum aukist til muna. Þetta er auðvitað meira mál fyrir landsbyggðarliðin en aðra; miðað við hvernig þessu er raðað upp eigum við til dæmis tvo útileiki fyrstu vikuna, fyrst á mánudegi og aftur á fimmtudegi. Við verðum komnir heim um miðja nótt eftir fyrri leikinn, æfingin á þriðjudegi fer í að menn jafni sig, æfing verður á miðvikudegi og svo er lagt í hann aftur daginn eftir, spilað um kvöldið og komið heim um miðja nótt.“

Þorvaldur gengur svo langt að gera því skóna að einhverjir verði jafnvel að velja á milli atvinnu eða skóla, og handboltans; að einhverjir vinnuveitendur að minnsta kosti verði ekki sérstaklega glaðir með öll þessi ferðalög á skömmum tíma. „Svo á veturinn væntanlega eftir að minna á sig með vondu veðri sem gerir ferðalög okkar erfiðari. Og hvað ef lið lenda í sóttkví? Það hlýtur að þurfa að gera ráð fyrir því.“

Hann hefur líka áhyggjur af því að menn fái of litla hvíld í sumar. „Ef leikið verður fram á sumar ná menn varla að anda þangað til undirbúningur hefst fyrir næsta Íslandsmót.“

Þórsarar hafa sent HSÍ tvær hugmyndir að lausn.

  • Annars vegar að leika bara fyrri umferð Íslandsmótsins, síðan taki við átta liða úrslitakeppni en tvö neðstu liðin spili úrslitakeppni við lið úr Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins, um sæti í efstu deild næsta vetur. Bikarkeppnin verði eins og ráð sé fyrir gert.
  • Hins vegar að leika bara fyrri umferðina, svo átta liða úrslitakeppni en ekkert lið falli úr Olísdeildinni. Skoða jafnvel að fjölga í deildinni tímabundið og fleiri lið en venjulega falli þá næsta vetur. Bikarkeppnin verði eins og ráð sé fyrir gert.