Fara í efni
Íþróttir

Hættur og fer í fjórðu aðgerðina á öxl

Valþór Atli, nokkrum andartökum eftir að hann fór úr axlarlið gegn KA, ásamt Sesselíu Sigurðardóttur, sjúkraþjálfara Þórsara. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Valþór Atli Guðrúnarson, handboltamaðurinn snjalli í Þór, er hættur keppni. Valþór segir ekki annað í stöðunni eftir að hann fór enn einu sinni úr axlarlið í síðasta leik liðsins, gegn KA á sunnudaginn.

Valþór fór úr axlarlið hægra megin í síðasta mánuði þegar Þór lék við Val í Reykjavík en var mættur aftur til leiks 20 dögum síðar gegn Gróttu í íþróttahöllinni. Það var svo um miðjan seinni hálfleik á sunnudaginn að sama öxl fór úr lið. „Það gerðist í raun ekkert annað en að þegar ég skaut á markið fór ég úr lið, nákvæmlega eins og á móti Val um daginn,“ segir Valþór Atli við Akureyri.net.

„Ég vissi strax hvað hafði gerst og hver staðan var. Ég var í sambandi við lækni eftir atvikið á móti Val og þá leit allt ágætlega út í sjálfu sér. Hættan á að þetta gerist aftur verður samt alltaf meiri í hvert skipti en læknirinn bannaði mér samt ekki að spila. Hann sagði að ég þyrfti bara að taka þá ákvörðun sjálfur.“

Erfiðara var að koma öxlinni í liðinn nú en áður, segir Valþór. „Ég fór inn í klefa með sjúkraþjálfara sem kom öxlinni í liðinn, en hún rann svo bara aftur úr liðnum.“ Ekki náðist að koma henni á sinn stað strax aftur. „Þegar sjúkrabíllinn kom var liðinn svo langur tími að þeir vildu ekki reyna að koma mér í liðinn aftur strax heldur reyndu að verkjastilla mig og það var ekki fyrr en ég var búinn að fara í myndatöku uppi á sjúkrahús að öxlin var sett aftur í lið. Þetta var óvenjulega langur tími.“

Valþór hefur verið einkar óheppinn með meiðsli í gegnum tíðina og enn ein aðgerðin er framundan. „Ég hef þegar farið í þrjár axlaraðgerðir, einu sinni vinstra megin og tvisvar á þeirri hægri; þetta verður því sú þriðja á hægri öxlinni,“ segir hann. „Það þarf að gera við þetta svo ég renni ekki úr lið við einhverja hversdagslega hluti,“ segir Valþór, sem er ekki nema 29 ára. Verður þrítugur í mars.

Nú segist hann hættur í handbolta og skyldi engan undra. „Ég held ég segi þetta bara gott núna! Fjórar axlaraðgerðir og ein krossbandsslit eru full mikið. Ég býst við að flestir væru löngu hættir eftir öll þessi meiðsli og þetta var endapunkturinn hjá mér. Ég er samt ákveðinn í að vera eitthvað í kringum liðið og reyni að hjálpa til eins og ég get, hvort sem verður bara með því að hvetja liðið eða fylla á vatnið. Ég finn einhverja leið til þess að hjálpa drengjunum,“ segir Valþór Atli Guðrúnarson.

Nokkrum sekúndum fyrir skotið örlagaríka „stal“ Valþór boltanum snilldarlega af Patreki Stefánssyni sem var í hraðaupphlaupi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.