Fara í efni
Íþróttir

Gunnar Nelson afhenti Tómasi svarta beltið

Tómas Pálsson faðmar Gunnar Nelson að sér, eftir að bardagakappinn kunni afhenti honum svarta beltið…
Tómas Pálsson faðmar Gunnar Nelson að sér, eftir að bardagakappinn kunni afhenti honum svarta beltið í Jiu Jitsu. Ljósmyndir: Hilmar Friðjónsson.

Akureyringurinn Tómas Pálsson fékk um helgina svarta beltið í brasilísku Jiu Jitsu, einni kunnustu sjálfsvarnaríþrótt í heimi.

Tómas, sem hefur æft Jiu Jitsu af krafti í sjö ár, er eigandi Atlantic AK æfingamiðstöðvarinnar á Akureyri og yfirþjálfari. Þar var haldið fjölmennt og vel heppnað námskeið um helgina, þar sem kunnasti bardagakappi Íslands, Gunnar Nelson, var á meðal leiðbeinenda.

Gunnar Nelson kom norður ásamt fleiri Mjölnismönnum í þeim tilgangi að kenna, en átti einnig annað erindi sem ekki hafði verið upplýst um: að afhenda Tómasi svarta beltið, sem segja má að hafi verið hápunktur helgarinnar. Ekki er hægt að komast hærra í virðingarstiganum en að fá svarta beltið enda fögnuðu viðstaddir vel og lengi þegar Gunnar dró það úr pússi sínu og batt utan um Tómas. 

Öflugasta Jiu Jitsu starf hérlendis er í Mjölni og Halldór Logi Valsson og Kristján Helgi Hafliðason kenndu ýmis tækniatriði ásamt Gunnari, en Jiu Jitsu snýst um að yfirbuga andstæðinginn með fastataki eða „hengingu“.

Tómas var augljóslega hrærður, lýsti yfir miklu stolti og sagði þetta mikinn heiður. Hilmar Friðjónsson ljósmyndari var á staðnum og fangaði stemninguna.