Fara í efni
Íþróttir

Glódís: stigahæsta konan og vann þrjú gull

Glódís Edda Þuríðardóttir í 100 metra grindahlaupinu, þar sem hún vann mesta afrek konu á Meistaramó…
Glódís Edda Þuríðardóttir í 100 metra grindahlaupinu, þar sem hún vann mesta afrek konu á Meistaramótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Glódís Edda Þuríðardóttir, 18 ára bráðefnilegur frjálsíþróttamaður úr Kraftlyftingafélagi Akureyrar, var eini keppandinn á Meistaramóti Íslands á Þórsvellinum um helgina sem vann þrenn gullverðlaun í einstaklingsgreinum. Þá vann Glódís Edda mesta afrek kvenna á mótinu skv. alþjóðlegri stigatöflu.

Glódís Edda vann gullverðlaun í 100 metra grindahlaupi og 400 metra hlaupi í gær, laugardag, og í dag bætti hún við gulli í 400 metra grindahlaupi.

Það var fyrir 100 metra grindahlaupið í gær sem Glódís fékk 1088 stig; hún hljóp á 13,46 sekúndum, sem er mótsmet og næst best tími íslenskrar konu frá upphafi. Vindur var að vísu langt yfir leyfilegum mörkum (fjórir metrar á sekúndu en má vera tveir metrar á sekúndu) en tíminn sýnir hvað í Glódísi býr.

Næst stigahæsta kona Meistaramótsins var sprettharðasta kona Íslands, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir; hún fékk 1033 stig fyrir að hlaupa 200 metra á 24,03 sekúndum í gær.

Stigahæsti karl mótsins um helgina var Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR; hann fékk 1095 stig fyrir að kasta spjóti 79,57 metra og Guðni Valur Guðnason,ÍR, fékk 1090 stig fyrir að kasta kringlu 61,60 metra. Þeir voru einu keppendur á mótinu sem fengu fleiri stig en Glódís Edda.

Sigurþóra Brynja Kristjánsdóttir úr UFA sigraði í 5000 metra hlaupiá 17:59,64 mínútum. Það er persónulegt met Sigurþóru.

Smellið hér til að sjá töflu fyrir bestu afrek mótsins.

Aðstæður voru ekki eins og best verður á kosið seinni keppnisdaginn. Í morgun hafði gránað í fjöll, hiti var ekki nema fjórar eða fimm gráður en logn, sem betur fer. Annað slagið rigndi smávegis og fyrir hádegi mátti með góðum vilja tala um slyddu... 

ÍR sigraði í stigakeppni mótsins, fékk 76,0 stig og FH fékk 53,0 stig. Þau höfðu töluverða yfirburði. Kraftlyftingafélag Akureyrar (KFA) varð fjórða stigahæsta liðið með 20,0 og Ungmennafélag Akureyrar (UFA) í sjötta sæti með 12,0.

Í stigakeppni kvenna varð ÍR efst með 42,0 stig, FH í öðru sæti með 21,0 og KFA í þriðja sæti með 14,0.

Í stigakeppni karla var ÍR efst með 34,0 stig og FH í öðru sæti með 32,0. UFA varð í fimmta sæti með 7,0 stig og KFA í sjötta sæti með 6,0 stig.

Smellið hér til að sjá allt um stigakeppnina.

Smellið hér til að sjá hvernig verðlaun skiptust á milli félaga.

Smellið hér til að sjá öll úrslit á mótinu.

Smellið hér til að sjá myndasyrpur frá báðum keppnisdögum Meistaramótsins.