Fara í efni
Íþróttir

Glæsilegur sigur KA-manna í Eyjum

Arnar Grétarsson þjálfari KA. Hans menn hafa unnið tvo fyrstu leikina á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Ska…
Arnar Grétarsson þjálfari KA. Hans menn hafa unnið tvo fyrstu leikina á Íslandsmótinu. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA vann sannfærandi sigur á ÍBV, 3:0, í Vestmannaeyjum í dag í 2. umferð Bestu deildarinnar i knattspyrnu, efstu deildar Íslandsmótsins. KA-menn eru því með fullt hús, sex stig, eftir tvo leiki.

Sveinn Margeir Hauksson gerði fyrsta markið undir lok fyrri hálfleiks, Nökkvi Þeyr Þórisson það næsta á 72. mín. og Hallgrímur Mar Steingrímsson gulltryggði sigurinn skömmu síðar.

Leikurinn var jafn framan en KA-menn tóku svo völdin og voru mun betri lungann úr fyrri hálfleik. Þeir fengu þrjú góð færi til að skora áður en Sveinn Margeir braut loks ísinn, rétt áður en flautað var til hálfleiks. Belgíski bakvörðurinn Van Den Bogaert sendi þá inn í teig frá vinstri kanti, Sveinn Margir tók boltann niður, lék frábærlega á varnarmann og skoraði af öryggi.

KA-menn voru reyndar ljónheppnir að fá ekki á sig vítaspyrnu þegar hálftími var liðinn, þegar enn var markalaust; boltinn fór í hönd áðurnefnds Van Den Bogaert en dómarinn sá einhverra hluta vegna ekki ástæðu til þess að dæma. Eyjamenn vildu líka fá víti í tvö önnur skipti en þær kröfur voru alls óraunhæf.

Eyjamenn töldu sig svo hafa jafnað þegar um 25 mín. voru eftir. Felix Örn Friðriksson skoraði með glæsilegu skoti eftir horn en einn Eyjamaðurinn var dæmdur rangstæður. Heimamenn mótmæltu hástöfum en það skilaði engu nema gulu spjaldi handa Hermanni Hreiðarssyni, þjálfara ÍBV. Endursýning í sjónvarpi leiddi i ljós að úrskurður dómaratríósins var laukréttur.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna