Fara í efni
Íþróttir

Glæsileg mörk og flottur sigur SA á Fjölni

Axel Orongan (96) skoraði fyrsta mark SA í kvöld og átti stoðsendinguna á Unnar Rúnarsson þegar hann gerði þriðja og síðasta markið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Karlalið Skautafélags Akureyrar sigraði Fjölni 3:1 í kvöld í Reykjavík, í öðrum úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí. SA vann fyrsta leikinn 2:1 á Akureyri á laugardaginn og getur tryggt sér titilinn á heimavelli á fimmtudagskvöldið, því þrjá sigra þarf til að verða meistari.

Hart var barist eins og við mátti búast, ekki síður en í fyrsta leiknum. Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta en Axel Orongan braut ísinn fyrir SA þegar annar leikhluti var tæplega hálfnaður með frábæru skoti – lét vaða af löngu færi! Jóhann Leifsson kom SA svo í 2:0 snemma í þriðja leikhluta; Fjölnismenn misstu pökkinn klaufalega á eigin vallarhelmingi, Andri Mikaelsson sendi á Jóhann Leifsson og ekki einu sinni heimamenn gátu kvartað undan skotinu, Jóhann hamraði pökkinn efst í fjærhornið af stuttu færi. Stórglæsilega gert.

Vignir Arason minnkaði muninn í eitt mark um miðjan leikhlutann og þegar heimamenn tóku markmanninn af velli og bætti við sóknarmanni undir lokin komst Unnar Rúnarsson á auðan sjó eftir sendingu Axels Orongan og skoraði í tómt markið.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Hér er hægt að horfa á upptöku af leiknum