Fara í efni
Íþróttir

Gígja í 76. sæti af 88 keppendum á HM

Gígja Björnsdóttir, Skíðafélagi Akureyrar, keppti í dag í 10 km skíðagöngu á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum. HM fer fram í Oberstdorf í Þýskalandi. Gígja var með rásnúmer 85 en náði betri tíma en níu keppendur sem fóru af stað á undan henni og lenti því í 76. sæti; gekk vegalengdina á 30 mínútum, 15,2 sekúndum.

„Keppt var í miklum hita og sól sem gerir brautina erfiða og krefjandi. Gengnir eru tveir hringir, talsverður hæðarmunur og miklar beygjur,“ segir á heimasíðu Skíðasambandsins.

Hin norska Therese Johaug sigraði örugglega, fór 10 km á 23:09,8 mín., og nældi þar með í önnur gullverðlaun sín á mótinu. Hún vann einnig 15 km gönguna. Johaug var 54 sekúndum í mark á undan Fridu Karlsson frá Svíþjóð, sem varð önnur.