Fara í efni
Íþróttir

Gamlir júdógallar fá nýtt líf í Nepal

Aðalþjálfari júdódeildar KA, Elvira Dragemark, lætur af störfum í næsta mánuði. Eitt af hennar síðustu verkum hjá júdódeildinni er að safna saman gömlum júdógöllum og senda þá til Nepal þar sem þeir munu koma að góðum notum.

„Mér þykir mjög leiðinlegt að þurfa að yfirgefa júdódeildina. Það er alltaf leiðinlegt að byrja á einhverju en fá ekki að fylgja því eftir. Mér þykir orðið mjög vænt um iðkendurnar hérna sem margir hverjir eru mjög frambærilegir. Það hefði verið frábært að fá að aðstoða þá við að vaxa,“ segir Elvira en stjórn júdódeildarinnar ætlar ekki að endurnýja samninginn við hana þegar hann rennur út í vor. Ástæðan er sögð vera fjárhagsörðugleikar deildarinnar. Júdóiðkendur eru of fáir til þess að standa undir launakostnaði en Elvira hefur verið í 25% starfi hjá deildinni. Um 35 iðkendur eru nú í deildinni sem hefur verið rekin með tapi í vetur. Júdóiðkendum fækkaði mikið í kjölfar covid og hefur deildin enn ekki náð sér á strik eins og væntingar gerðu ráð fyrir þegar Elvira var ráðin.

Elvira við hluta af júdógöllunum sem sendir verða til Nepal. Sendingarkostnaður er nokkur og getur almenningur stutt við verkefnið með því að leggja inn á reikning Júdósambandsins. Sjá upplýsingar neðst í greininni.

Féll fyrir júdóinu 9 ára

Elvira er sænsk og kom hún til starfa hjá júdódeild KA síðasta haust. Hún hefur stundað júdó í 22 ár eða frá 9 ára aldri og er með svart belti, 3. dan. „Ég var mjög virkur krakki og átti erfitt með að sitja kyrr. Ég prófaði ýmsar íþróttir og féll fyrir júdóinu,“ segir Elvira sem er með gráðu í íþrótta- og þjálffræði frá Högskolan Dalarna, í Falun í Svíþjóð, með sérstaka áherslu á júdóþjálfun.

Áður en hún kom til KA hafði Elvira m.a. þjálfað hjá júdódeild Tindastóls. Hún segir að tíminn hjá KA hafi verið góður en vissulega hefði hún kosið að vera lengur. „Aðstaðan hér er mjög góð, það eru ekki allir júdósalir sem eru svona bjartir eins og salurinn í KA. Það skipti mjög miklu máli yfir dimmasta tíma ársins að nýta alla þá dagsbirtu sem í boði er.“

Frá júdóæfingu.Mér þykir orðið mjög vænt um iðkendurnar hérna sem margir hverjir eru mjög frambærilegir. Það hefði verið frábært að fá að aðstoða þá við að vaxa,“ segir Elvira.

Minni stundvísi á Íslandi

Aðspurð út í Akureyri og dvöl sína á Íslandi almennt segir hún að það hafi komið henni á óvart hversu ólíkir Íslendingar og Svíar séu í hugsunarhætti. „Hér er almennt minna skipulag á hlutunum og margt gert á síðustu stundu. Ég hef þurft að venjast þessum hugsunarhætti Íslendinga,“ segir hún og bætir við að hún sé stundum hissa á því að hlutirnir virðist samt alltaf einhvern vegin ganga upp hér. „Þá finnst mér minni virðing borin fyrir tímanum á Íslandi. Ef einhver kemur of seint í Svíþjóð þá er það mjög dónalegt, en hér virðist stundvísi ekki skipta jafn miklu máli.“

Þá er að sjálfsögðu mikill munur á Gautaborg og Akureyri og Elvira hefur þurft að venjast því. „Hér er ekki svo mikið við að vera en á móti kemur að bærinn er öruggur og mér líður vel hér. Þá er mjög stutt í villta náttúru, sem ég kann vel að meta.“

Í ljós kemur að það hefur ýmislegt gerst í lífi Elviru eftir að hún flutti til Íslands. Hún kynntist t.d. kærustunni sinni hér á landi en hún er dönsk svo saman hafa þær verið að kynnast Akureyri og íslensku samfélagi og menningu. „Við vorum t.d. að hlægja að því að þegar Krónan opnaði þá fóru allir þangað. Það að ný verslun opnaði í bænum var stórviðburður.“

Júdóíþróttin er mjög stór á heimsvísu þó fáir júdóiðkendur séu á Akureyri. Elvira er hér við mynd af lærifaðir júdósins, hinum japanska Jigoro Kano.

Júdó styrkir andlega og líkamlega hæfni

Elvira vonar að úr rætist með júdódeildina enda mikilvægt að ungmenni hafi aðgang að fjölbreyttu íþróttastarfi. Júdóið er líka meira en bara íþrótt. Heimspekin á bak við júdó snýst um það að hjálpa iðkendum að verða besta útgáfan af sjálfum sér og júdóið styrkir ekki bara líkamlega getu iðkenda heldur líka andlegu hliðina. Þannig kennir júdóið iðkendum t.d að falla en standa upp aftur, sem sé mjög mikilvægt að geta í lífinu almennt. „Mér finnst mikilvægt að efla sjálfsálit og sjálfstraust iðkenda til að ná fram því besta í getu hjá hverjum einstaklingi, bæði á og utan keppnisvallar,“ segir Elvira. Hún bætir við að þó að júdóíþróttin sé í grunninn einstaklingsíþrótt þá sé líka mikilvægt að iðkendur styðji hver annan og að það sé góð liðsheild í hópi iðkenda. Það hafi hún lagt áherslu á.

Elvira segir mikilvægt að ungmenni hafi val þegar íþróttir eru annars vegar. Hún vonar að úr rætist með júdódeild KA en iðkendum fækkaði mjög í covid og hefur deildin ekki náð sér aftur á strik.

Safnað fyrir sendingarkostnaði

Eins og kom fram hér í upphafi þá er tengist eitt síðasta verkefni Elviru hjá júdódeildinni því að láta gott af sér leiða og efla júdóíþróttina á heimsvísu með því að senda gamla júdógalla til Nepal. „Þessi söfnun tengist átaki sem kallast Judo for Peace. Júdódeild KA á mikið af gömlum júdógöllum sem liggja hér ónotaðir en gætu nýst í júdókennslu í Nepal. Við höfum því verið að þvo þessa galla og ætlum að senda þrjá kassa til Katmandu. Sendingkostnaðurinn er töluverður og því höfum við verið að leita til almennings eftir stuðningi við verkefnið,“ segir Elvira.

Aðspurð um framhaldið hjá henni er fátt um svör. „Mig langar til að halda áfram að þjálfa júdó en vissulega eru tækifærin ekki mörg hér á landi. Ég er að skoða mig um. Ég veit að stjórn júdódeildarinnar hefur verið ánægð með störf mín, þetta snýst eingöngu um fjármuni. Þá veit ég að júdóiðkendur hér á Akureyri hafa kunnað að meta mig og ég er aldrei hamingjusamari en ef nemendur mínir eru hamingjusamir. Þá veit ég að ég er að vinna gott starf.“

  • Þeir sem vilja leggja Nepal-verkefni júdódeildar KA lið geta lagt inn á reikning þeirra. Greiðslan merkist „söfnun“ Reikningur: 162-26-4237, kt. 561089-2569.

„Aðstaðan hér er mjög góð, það eru ekki allir júdósalir sem eru svona bjartir eins og salurinn í KA. Það skipti mjög miklu máli yfir dimmasta tíma ársins að nýta alla þá dagsbirtu sem í boði er,“ segir Elvira um júdósal KA.