Fara í efni
Íþróttir

„Gaman að sjá þessa stráka blómstra“

Stefán Árnason og Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, sem kjörinn var Íþróttamaðu…
Stefán Árnason og Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Magdeburg í Þýskalandi, sem kjörinn var Íþróttamaður ársins 2021.

Stefán Árnason, handboltaþjálfari hjá KA, brá undir sig betri fætinum skömmu fyrir jól; hélt til Þýskalands í því skyni að fylgjast með fjórum fyrrverandi lærisveinum sínum sem allir leika þar sem atvinnumenn í íþróttinni.

Stefán, sem þjálfaði meistaraflokk KA frá 2017 til 2020 og nú nokkra yngri flokka félagsins, þjálfaði á Selfossi á sínum tíma, meðal  annars strákana fjóra sem hann heimsótti í Þýskalandi og eru nú allir með landsliðinu á Evrópumótinu.

 • Ómar Ingi Magnússon, sem kjörinn var Íþróttamaður ársins 2021, leikur með SC Magdeburg, toppliðinu í Þýskalandi
 • Janus Daði Smárason er leikmaður Frisch Auf Göppingen
 • Elvar Örn Jónsson spilar með MT Melsungen
 • Teitur Örn Einarsson er leikmaður Flensburg-Handewitt

Fjórir leikir á fáeinum dögum

„Ég var búinn að stefna að því í dálítinn tíma að fara út og horfa á strákana. Í haust voru Ómar og félagar í Magdeburg ósigrandi á toppnum og lið allra hinna meðal þeirra efstu í deildinni og þá ákvað ég að skipuleggja ferð; sagði við sjálfan mig að ég væri ruglaður ef ég nýtti ekki tækifærið í þetta skipti,“ segir Stefán við Akureyri.net. Í ljós kom að lítið sem ekkert svigrúm yrði til þess að skella sér úr landi eftir áramót, því leikir eru nánast um hverja einustu helgi hjá flokkunum sem hann þjálfar.

Stefán kynnti sér því leikjaniðurröðunina fyrir jól „og sá að með lagni gæti ég náð fjórum leikjum á nokkrum dögum. Þetta var í raun eini möguleikinn á að sjá alla í Þýskalandi því Janus Daði fer til stjörnuliðsins Kolstad í Noregi næsta vetur.“

Okkar maður gerði víðreist: Sá Ómar og Magdeburg heimsækja Arnór Þór Gunnarsson og samherja í Bergischer í vesturhluta landsins, horfði á Janus Daða suður í Göppingen, sá síðan Teit Örn og Elvar Örn mætast í Flensburg, norður undir landamærum Danmerkur, og loks hélt hann til Magdeburg í austurhluta landsins þar sem hann sé leik liðsins við Hamburger. Að auki fékk Stefán að fylgjast með æfingu Ómars og samherja hans í toppliðinu.

 • 18. desember:
  Bergischer – Magdeburg 24:27 (Arnór Þór Gunnarsson – Ómar Ingi)
 • 19. desember:
  Göppingen – Füchse Berlin 24:31 (Janus Daði – )
 • 22. desember:
  Flensburg-Handewitt – MT Melsungen 27:24 (Teitur Örn – Elvar Örn)
 • 23. desember:
  Magdeburg – Hamburger 34:26 (Ómar Ingi – )

„Þetta var mjög skemmtileg ferð en ekki auðveld því eftir að ég skipulagði hana versnaði Covid ástandið í Þýskalandi og reglur urðu mjög strangar. Ekki voru leyfðir margir áhorfendur í höllunum, til dæmis bara 750 í Göppingen, en þá var gott að þekkja réttu mennina sem gátu reddað miðum ...“

Einn af mörgum

Stefán þjálfaði strákana í yngri flokkum á Selfossi í þrjú til fjögur ár. Eftir tveggja ára starf í Vestmanneyjum flutti hann aftur á Selfoss og tók við meistaraflokknum, og þá léku Elvar og Teitur undir stjórn hans í tvö ár til viðbótar.

„Það er gaman að sjá þessa stráka blómstra – vaxa og dafna. Þetta eru ótrúlega duglegir drengir og það kemur ekki á óvart að þeir séu allir í landsliðinu og að standa sig svona vel. Maður sá snemma að þeir eru metnaðarfullir og ætluðu sér að ná langt. Það var unnið frábært starf á Selfossi, mikið lagt í handboltann og við æfðum mikið. Elvar og Ómar eru fæddir 1997, við fórum nokkrum sinnum á mót erlendis með þann hóp og enduðum á því að vinna Partille Cup í Svíþjóð.“

Stefán var 23 ára þegar hann hóf að þjálfa á Selfossi. „Ég lærði örugglega jafn mikið af því að þjálfa þá og þeir af mér! Ég var bara einn af mörgum sem þjálfaði þá og ætla alls ekki eigna mér það hve góðir þeir eru! Einar Guðmundsson, yfirþjálfari á Selfossi og unglingalandsliðsþjálfari, var mikið með þessa stráka. En það er gaman að vera einn þeirra sem hjálpaði strákunum á þeirra leið.“

Janus Daði Smárason, leikmaður Frisch Auf Göppingen, og Stefán. 

Stefán ásamt Elvari Erni Jónssyni leikmanni MT Melsungen, til vinstri, og Teiti Erni Einarssyni, sem leikur með SG Flensburg-Handewitt.