Fara í efni
Íþróttir

Landsliðsferill Nökkva hófst gegn Eistlandi

Nökkvi Þeyr Þórisson með boltann í leiknum gegn Eistlandi í dag. Ljósmynd af Twitter reikningi KSÍ.

Knattspyrnumaðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson lék í fyrsta skipti fyrir hönd Íslands í dag, sunnudag, þegar A-landsliðið gerði 1:1 jafntefli við Eistland í vináttuleik í Portúgal. Nökkvi Þeyr var í byrjunarliðinu og lék í 63 mínútur á Nora leikvanginum í Albufeira.

Eistar skoruðu undir lok fyrri hálfleiksins en Andri Lucas Guðjohnsen tryggði Íslandi jafntefli með marki úr vítaspyrnu á lokaandartökum leiksins.

Leikurinn í dag kórónaði góða helgi hjá Nökkva Þey því í gær var hann kjörinn íþróttakarl KA árið 2022. Hann sló eftirminnilega í gegn í sumar eins og mörgum er í fersku minni, varð markakóngur Íslandsmótsins og var síðan kosinn besti leikmaður mótsins af leikmönnum í haust. Þá var Nökkvi farinn til Beerschot í Belgíu þar sem hann hefur staðið sig með prýði í vetur.

Annar KA-maður er í landsliðshópnum í Portúgal, Bjarni Mark Antonsson, sem er á mála hjá IK Start í Noregi. Hann kom ekki við sögu í dag.

Íslendingar mæta Svíum á fimmtudag í seinni vináttuleik Portúgalsferðarinnar.

KA-mennirnir Nökkvi Þeyr Þórisson og Bjarni Mark Antonsson eru í landsliðshópnum. Bjarni kom ekki við sögu í dag. Mynd af vef KA.