Fara í efni
Íþróttir

Fyrsti heimaleikur KA-strákanna í vetur

Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA í handbolta. Mynd af vef KA.

Fyrsti heimaleikur karlaliðs KA í handbolta í vetur verður í KA-heimilinu í kvöld. Það eru Framarar sem kom í heimsókn og hefst leikurinn kl. 19.30. KA-strákarnir eiga einn leika að baki í Olís deildinni, efstu deild Íslandsmótsins; þeir unnu öruggan sigur á Selfyssingum á útivelli um síðustu helgi.

Halldór Stefán Haraldsson, sem tók við þjálfun KA í sumar, segir á heimasíðu félagsins að lykillinn að velgengi liðsins í vetur sé að „halda áfram að byggja góðan æfingakúltúr í liðinu og vera með sterka hugmyndafræði um það hvernig við viljum leika okkar leik og hafa trú á þeirri hugmyndafræði í gegnum tímabilið. Vinna með það að bæta ofan á það sem við gerum vel. Svo er það auðvitað gamla klisjan að eldri menn þurfa að haldast heilir og yngri leikmenn þurfa að taka skref uppávið eftir því sem að líður á tímabilið.“

Hann er spurður um markmið liðsins og svarar:

„Mælanleg frammistöðumarkmið liðsins í vetur eru að ná 6. sæti í deild og að verða bikarmeistarar.“

Halldór Stefán segist ánægður með leikmannahópinn „en við hefðum alveg þurft að bæta við okkur 1-2 sterkum leikmönnum í viðbót til að auka gæðin enn frekar,“ en bætir við: „Sá leikmaður hefur hinsvegar ekki staðið okkur til boða í þeim stöðum sem við myndum vilja styrkja og þá er betra að nota leikmenn úr eigin starfi og gefa uppöldum leikmönnum möguleika á að taka þær stöður sem eru lausar.“

Nánar hér á heimasíðu KA