Fara í efni
Íþróttir

Fyrsti heimaleikur KA á Dalvík í dag

Spánverjinn Rodri fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik gegn KR, var vafinn býsna myndarlega en var skipt …
Spánverjinn Rodri fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik gegn KR, var vafinn býsna myndarlega en var skipt út af í hálfleik. Hann er ekki með í dag en Brynjar Ingi Bjarnason er á sínum stað í vörninni. Ljósmynd: fotbolti.net - Hafliði Breiðfjörð.

Fyrsti heimaleikur KA í efstu deild Íslandsmóts karla í fótbolta, Pepsi Max deildinni, fer fram í dag. KA mætir nýliðum Leiknis úr Breiðholti og hefst leikurinn klukkan 17.30.

Óvenju langt er fyrir stuðningsmenn þeirra gulu og bláu að fara á heimaleik að þessu sinni, því leikið verður iðjagrænum gervigrasvellinum á Dalvík. Býsna neyðarlegt, verður að segjast, fyrir höfuðstað Norðurlands eins og töluvert hefur verið hamrað á í knattspyrnuheiminum undanfarna daga en hins vegar þarf ekki að kvarta undan aðstæðum á Dalvík. Og auðvitað er þetta stór stund fyrir knattspyrnuáhugamenn þar í bæ.

KA gerði markalaust jafntefli við HK í Kórnum í Kópavogi í fyrstu umferðinni en sigraði KR 3:1 í síðasta leik í Reykjavík. Leiknismenn hafa farið vel af stað í deildinni og eru með tvö stig; gerðu markalaust jafntefli við Stjörnuna í Garðabæ í fyrstu umferð og síðan 3:3 jafntefli við meistaraefnin í Breiðabliki á heimavelli sínum. Leiknismenn komust í 3:1 í þeim leik.

Þrír KA-menn urðu fyrir hnjaski gegn KR og eru ekki með í dag; miðjumaðurinn Rodrigo, belgíski bakvörðurinn Jonathan Hendrickx og Hrannar Björn Steingrímsson. Haukur Heiðar Hauksson, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Þorri Már Þórisson kom inn í byrjunarliðið í staðinn.