Fyrsta mark Sonju Bjargar í efstu deild

Framherjinn Sonja Björg Sigurðardóttir var í annað skipti í byrjunarliði Þórs/KA í Bestu deildinni í knattspyrnu í gær og gerði þá fyrsta mark sitt í deildinni.
Þór/KA vann FHL 5:2 í Fjarðabyggðahöllinni á Reyðarfirði eins og Akureyri.net greindi frá í gærkvöldi – sjá hér. Sandra María Jessen kom Þór/KA í 1:0 á 15. mínútu en einni og hálfri mínútu síðar, á 16. mínútu (15:35) skoraði Sonja.
Markið kom eftir frábæran undirbúning vinstri bakvarðarins Bríetar Jóhannsdóttur. Hún fór illa með tvo varnarmenn á vinstri kantinum, komst inn í vítateig og sendi inn á markteig á Sonju Björgu sem skaut, Keelan Terrell varði en Sonja fékk boltann strax aftur og potaði honum í markið.
Sonja Björg í leiknum FH í Boganum 3. maí, þegar hún var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu í efstu deild. FH-ingurinn til vinstri er Arna Eiríksdóttir sem lék með Þór/KA sumarið 2022. Mynd: Ármann Hinrik
Sonja, sem varð 19 ára fyrr á árinu, var lánuð til Völsungs á Húsavík 2022, þá aðeins 16 ára, og aftur 2024 og gerði alls 14 mörk í C deild Íslandsmótsins.
- 2022 – 11 mörk í C deild með Völsungi.
- 2024 – 3 mörk í C deildinni með Völsungi.
Sonja Björg lék í framherjastöðunni á undirbúningstímabilinu í ár en varð fyrir því óláni að fara úr axlarlið í verkefni með U-19 landsliðinu í byrjun apríl. Hún var því frá um tíma en kom inn í leikmannahópinn á ný í 2. umferð Bestu deildinnar, þegar Þór/KA vann Tindastól í Boganum. Hún kom þó ekki við sögu þá og ekki heldur í 4. umferðinni gegn Val.
- Sonja Björg tók þátt í 9 leikjum með Þór/KA í Bestu deildinni í fyrra, byrjaði í öll skiptin á varamannabekknum.
- Hún var í fyrsta skipti í byrjunarliði Þórs/KA í efstu deild gegn FH í Boganum 3. maí síðastliðinn. Hún byrjaði einnig í gær.
Til gamans má geta þess að Sonja er ekki eina íþróttakonan í fjölskyldunni. Móðir hennar, Hulda Elma Eysteinsdóttir, var á sínum tíma ein þekktasta blakkona landsins og landsliðsmaður til 20 ára. Systir Sonju, Amelía Ýr Sigurðardóttir, er varafyrirliði KA í blaki um þessar mundir og margfaldur meistari með liðinu.