Fara í efni
Íþróttir

Fyrsta mark Qvist og KA fór í 2. sætið

Takk fyrir sendinguna! Daninn hávaxni, Mikkel Qvist, þakkar Hallgrími Mar Steingrímssyni eftir að sá…
Takk fyrir sendinguna! Daninn hávaxni, Mikkel Qvist, þakkar Hallgrími Mar Steingrímssyni eftir að sá danski gerði sigurmarkið gegn Stjörnunni í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

KA sigraði Stjörnuna 2:1 síðdegis á Akureyrarvelli (Greifavellinum) í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Það var fyrsta mark danska varnarmannsins Mikkel Qvist á Íslandsmótinu sem skildi liðin að þegar upp var staðið.

KA-menn eru þar með orðnir jafnir Víkingum í 2. sæti deildarinnar með 30 stig að loknum 16 leikjum.

Ásgeir Sigurgeirsson kom KA í 1:0 eftir hálftíma en Stjarnan jafnaði snemma í seinni hálfleik, þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði. Það var svo um það bil 10 mínútum fyrir leikslok að KA fékk aukaspyrnu á vinstri kanti, Hallgrímur Mar Steingrímsson sendi inn á teig og Qvist, lang stærsti maður vallarins, skallaði boltann í markið, tiltölulega óáreittur.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Sigurmarkið! Það kann ekki góðri lukku að stýra að leyfa Mikkel Qvist að athafna sig að vild í vítateignum. Hér skallar hann boltann í markið í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.