Fara í efni
Íþróttir

Frægðarför SA-kvenna í höfuðborgina

SA-stúlkurnar hlýða á þjálfara sinn, Sami Lehtinen, í leiknum í morgun. Ljósmynd: Elísabet Ásgrímsdóttir

Meistaraflokkur kvenna hjá Skautafélagi Akureyrar í íshokkí gerði frægðarför suður um helgina þegar hann mætti liði Skautafélags Reykjavíkur í tveimur leikjum.

Fyrri leikurinn á föstudagskvöld var nokkuð tvísýnn á kafla en svo fór að SA-stelpur lögðu lið SR með þremur mörkum gegn einu. Í morgun mættust liðin öðru sinni og þá komu yfirburðir kvennaliðs SA berlega í ljós. Fór svo að SA vann þann leik með 13 mörkum gegn engu marki SR.

Það voru því sigursælar en þreyttar SA-konur sem komu heim til Akureyrar nú undir kvöldið.

Í fyrri leiknum skoruðu Arndís Eggerz Sigurðardóttir, Hilma Bóel Bergsdóttir og Katrín Rós Björnsdóttir sitt markið hver.

Í seinni leiknum voru markahæstar Hilma Bóel og Gunnborg Petra með 3 mörk hvor, Katrín Rós og Berglind Rós gerðu 2 mörk hvor og María Guðrún, Anna Sonja og Eva María með sitt markið hver.