Fara í efni
Íþróttir

Frábært í Þorlákshöfn og gjörbreytt staða

Srdan Stojanovic, Dedrick Deon Basile og Ivan Alcolado. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Þórsarar standa vel að vígi í baráttunni um sæti í úrslitakeppni Domino‘s deildarinnar í körfubolta eftir frækinn sigur á sterku liði Þórs í Þorlákshöfn í kvöld, 108:103.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 34:29 – 30:30 (64:59) – 17:24 – 22:25 (103:108)

Þórsarar voru á frábæru skriði þegar keppni var stöðvuð síðari hluta mars vegna Covid; höfðu þá unnið fimm leiki í röð. Eftir að keppni hófst á ný hefur liðið hins vegar verið ótrúlega mistækt; hafði tapað fyrir Tindastóli, Val, Hetti og Njarðvík fyrir leikinn í kvöld. Allir vita hve mikið býr í liðinu og því er ánægjulegt ef gamla, góða liðið er komið fram í dagsljósið á ný.

Leikstjórnandinn Dedrick Doen Basile var frábær í kvöld; lék í tæpar 34 mínútur, gerði 33 stig, átti 12 stoðsendingar og tók þrjú fráköst. Miðherjinn sterki, Ivan Aurrecoechea Alcolado, lék í tæpar 38 mínútur og gerði 27 stig, tók 11 fráköst og átti tvær stoðsendingar. Srdjan Stojanovic var sá eini sem lék í 40 mínútur – hverja einustu sekúndu leiksins. Hann skoraði 23 stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Ótrúlega jöfn keppni

Deildin er svo fáránlega jöfn að fyrir leikinn voru Þórsarar enn í fallhættu og útlitið satt besta að segja ekki sérlega bjart varðandi úrslitakeppnina. Njarðvíkingar, sem hafa verið heillum horfnir í vetur, unnu nefnilega ÍR-inga í gærkvöldi og skutust í áttunda sætið, upp fyrir Þórsara. En okkar menn áttu leik til góða, rimmuna í kvöld, og með sigri er staðan gjörbreytt. Þór er í áttunda sæti með 18 stig eins og Tindastóll.

Í lokaumferðinni, næsta mánudagskvöld, mæta Þórsarar liði Hauka, sem er fallið; vissulega sýnd veiði en ekki gefin en ef Þórsliðið leikur af eðlilegri getu vinnur það leikinn. Tapi Þórsarar hins vegar gætu þeir átt á hættu að missa af sæti í úrslitakeppninni, fari svo að Njarðvíkingar vinni Þórsara frá Þórlákshöfn.

Vinni Þór hins vegar Hauka, Njarðvíkingar tapi fyrir Þórsurum frá Þorlákshöfn og Tindastóll tapi heima fyrir Stjörnunni enda Akureyrar-Þórsarar í sjöunda sæti deildarinnar, fyrir ofan Tindastól, og mæta nöfnum sínum frá Þorlákshöfn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Möguleikarnir eru svo margir það borgar sig varla að velta þeim fyrir sér!

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni