Fara í efni
Íþróttir

„Frábært að sjá liðsheildina í dag“

Ingvi Þór Guðmundsson í fyrsta heimaleiknum með Þór - gegn gömlu félögunum í Grindavík. Hann lék grí…
Ingvi Þór Guðmundsson í fyrsta heimaleiknum með Þór - gegn gömlu félögunum í Grindavík. Hann lék gríðarlega vel. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

„Ég er gríðarlega ánægður með sigurinn. Hann skiptir okkur miklu máli og það var frábært að sjá liðsheildina í dag,“ sagði Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs við Akureyri.net eftir 101:98 sigur Þórsara á Grindvíkingum í Domino's deild Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Leikið var í íþróttahöllinni á Akureyri.

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 26:31 – 27:21 (53:52) – 27:23 – 21:23 (101:98)

Deildarkeppnin er rúmlega hálfnuð; Þórsarar hafa lokið 12 af 22 leikjum. Þeir hafa verið í basli og því var lífsnauðsyn að næla í stig. Höttur, sem tapaði naumlega í kvöld fyrir Stjörnunni á Egilsstöðum, Valur og Þór, eru öll með átta stig en Tindastóll og Njarðvík með 10. Lið Hauka er neðst með fjögur stig. Tvö neðstu liðin falla. Hér er þó ekki endilega verið að spá fallbaráttu! Þórsliðið getur unnið hvern sem er á góðum degi, þeim þarf einfaldlega að fjölga.

Gestirnir byrjuðu betur og höfðu yfir eftir fyrsta leikhluta en Þórsarar voru komnir yfir þegar fyrri hálfleik lauk, 53:52. Staðan var 80:75 fyrir Þór eftir þriðja leikhluta og sá fjórði var mjög spennandi. Gestirnir náðu fljótlega forystu en Þórsarar gyrtu sig í brók og tryggðu sér frábæran sigur.

Miðherji Þórs, Ivan Aurrecoechea Alcolado fór hreinlega hamförum í leiknum; hann skoraði 36 stig og tók 15 fráköst! Var sannarlega yfirburðamaður; skráður með 39 svokölluð framlagsstig, nærri tvöfalt fleiri en næsti maður á vellinum.

Útlendingarnir fimm hófu leikinn fyrir Þór; Ivan, Andrius Globys, Dedrick Don Basile, Srdan Stojanovic og Ohouo Guy Landry Edu, sem nýlega kom til Þórs. Þeir spiluðu vitaskuld allir stórt hlutverk. Það gerði líka Ingvi Þór Guðmundsson, Grindvíkingurinn sem gekk til liðs við Þór frá Haukum á dögunum. Þetta var fyrsti heimaleikur hans með Þór og óhætt að segja að byrjunin hafi ekki verið neitt slor! Ingvi lék tæpar 27 mínútur og þessir sex voru nánast þeir einu sem komu við sögu.

Bjarki Ármann sagði frábært að hafa fengið áhorfendur aftur í stúkuna og sigurinn hefði verið enn sætari fyrir vikið.

Áður nefndi hann liðsheildina, sem var sannarlega sterk, Ivan var óstöðvandi eins og Bjarki orðaði það – og allir viðstaddir sáu – en hann nefndi líka sérstaklega tvo nýjustu leikmenn liðsins, Ingva Þór Guðmundsson og Guy Landry Edu. „Guy er að sýna okkur að þarna er á ferðinni frábær leikmaður með mikla reynslu. Ingvi var algjörlega stórkostlegur gegn sínum gömlu félögum og í sínum fyrsta heimaleik fyrir Þór,“ sagði þjálfarinn.

„Þetta var hörkuleikur, Grindavík er með frábært og mjög vel þjálfað lið. Þetta var sannkallaður 50/50 leikur og sigurinn hefði í raun getað lent hvorum megin sem var. Ég er ennþá bara í skýjunum, en ég þarf að koma mér fljótt niður á jörðina því það styttist í Stjörnuleikinn, hann er eftir tæpa viku,“ sagði Bjarki við Akureyri.net skömmu eftir leik.

  • Ivan Alcolado 36 stig – 15 fráköst (10 í sókn, 5 í vörn) (37:24 mín.)
  • Ingvi Þór Guðmundsson 19 stig – 4 fráköst – 4 stoðsendingar (26:48)
  • Andrius Globys 15 stig – 7 fráköst – 2 stoðsendingar (35:55)
  • Dedrick Don Basile 15 stig – 1 frákast – 7 stoðsendingar (35:15)
  • Srdan Stojanovic 3 stig – 2 fráköst – 3 stoðsendingar (27:33)
  • Ohouo Guy Landry Edu 13 stig – 7 fráköst – 5 stoðsendingar (30:24)
  • Hlynur Freyr Einarsson (4:10)
  • Ragnar Ágústsson (2:31)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Ivan Alcolado lék frábærlega í kvöld og gat brosað sínu breiðasta! Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson