Fara í efni
Íþróttir

„Frábær varnarleikur hjá báðum liðum“

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson. Ljósmyndir: Egill Bjarni Friðjónsson og Þórir Tryg…
Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Andri Snær Stefánsson. Ljósmyndir: Egill Bjarni Friðjónsson og Þórir Tryggvason.

KA/Þór og Valur skildu jöfn, 23:23, í æsispennandi toppslag efstu deildar kvenna í handbolta að Hlíðarenda í gærkvöldi, eins og þá kom fram á Akureyri.net. Það var hornamaðurinn Kristín A. Jóhannsdóttir sem jafnaði fyrir KA/Þór með lokamarki leiksins, þegar skammt var eftir.

Sigurinn var reyndar ekki í höfn þegar Kristín jafnaði því 15 sekúndur voru eftir og Valsmenn tóku leikhlé þegar í stað. Rétt áður en leiktíminn rann út hugðist svo Lovísa Thompson smeygja sér í gegnum vörn gestanna en Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttur brugðust hárrétt við, og ruðningur var dæmdur á Lovísu. Besta dómarapar landsins, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, var ekki í neinum vafa um þann úrskurð.

Þegar staðan var 22:22 og um það bil mínúta eftir var KA/Þór í sókn en liðið tapaði boltanum klaufalega. Lovísa Thompson var fljót að átta sig, tók boltann upp og skoraði yfir endilangan völlinn. Lið KA/Þórs var með sjö menn í sókn mestan hluta seinni hálfleiks og því var enginn í markinu.

Stelpurnar okkar lögðu þó vitaskuld ekki árar í bát og strax í næstu sókn jafnaði Kristín úr vinstra horninu, eftir laglega sendingu Huldu Bryndísar Tryggvadóttur.

„Við vorum að elta Valsarana mest allan tímann en stelpurnar gáfust aldrei upp og þetta var mjög sanngjarnt stig sem við fengum. Ég er ótrúlega stoltur af stelpunum,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, sæll og glaður við Akureyri.net.

Andri nefnir eltingaleik en munurinn var þó aldrei meiri en tvö mörk og staðan var jöfn, 11:11, í hálfleik. Leikurinn var í járnum áfram en Valsmenn komust svo í 17:15 og aftur í 22:20.

„Þetta var ekki mjög hraður leikur en þeim mun meira barist. Liðin glötuðu boltanum ekki oft, sem sýnir hve góð sóknarlið þau eru bæði, en varnirnar voru bara svo góðar. Þetta var frábær varnarleikur hjá báðum liðum, en við eigum fullt inni; meiri markvörslu og betri sókn, og með smá heppni hefðum við getað tekið bæði stigin. En ég er mjög ánægður með annað stigið – þetta stig gefur stelpunum mikið sjálfstraust í framhaldinu,“ sagði Andri Snær.

„Þessar stelpur eiga mikið hrós skilið fyrir að leggja sig svona mikið fram og vera tilbúnar að berjast í 60 mínútur í hverjum einasta leik. Við sýndum það í kvöld að þetta er alvöru liðsheild – og það verður gaman að kveikja aftur á þessum perum á laugardaginn þegar Fram kemur í heimsókn norður!“ sagði Andri Snær.

Martha Hermannsdóttir verður ekki meira með í vetur vegna meiðsla, eins og komið hefur fram, og í kvöld var hvorki Sólveig Lára Kristjánsdóttir né Katrín Vilhjálmsdóttir í hópnum hjá KA/Þór. Andri Snær á von á að Sólveig verði með á laugardaginn en veit ekki með Katrínu.

Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 9 mörk - 6 víti, Ásdís Guðmundsdóttir 4/2, Kristín Aðalheiður Jóhannsdóttir 4, Aldís Ásta Heimisdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2 og Telma Lísa Elmarsdóttir 1.

Matea Lonac varði 7 skot og Sunna Guðrún Pétursdóttir 1.

Staðan á toppnum:

Valur - 6 leikir - 9 stig

Fram - 5 leikir - 8 stig

KA/Þór - 6 leikir - 8 stig

  • Næsti leikur: KA/Þór - Fram í KA-heimilinu næsta laugardag.