Fara í efni
Íþróttir

Frábær sigur Þórs á Stjörnunni í Garðabæ

Ivan Aurrecoechea Alcolado treður boltanum með tilþrifum í Garðabænum í kvöld. Hann fór hamförum í l…
Ivan Aurrecoechea Alcolado treður boltanum með tilþrifum í Garðabænum í kvöld. Hann fór hamförum í leiknum. Ljósmynd: Páll Jóhannesson

Þórsarar komust upp úr fallsæti Domino's deildarinnar í körfubolta með óvæntum en sannfærandi sigri, 91:86, á Stjörnunni, deildarmeisturum tveggja síðustu ára, í Garðabænum í kvöld. Frammistaða Þórsliðsins var í stuttu máli sagt frábær, ef fyrsti leikhlutinn er undan skilinn. Þá skoruðu Þórsarar að vísu 24 stig, sem er gott, en fengu á sig 33, sem gefur til kynna að vörnin var illa vöknuð. En hún vaknaði svo sannarlega eftir fyrsta leikhlutann og Stjarnan gerði til dæmis ekki nema 33 stig allan seinni hálfleikinn!

  • Skorið í hverjum leikfjórðungi: 33:24 – 20:18 (53:42) – 21:33 – 12:16 (86:91)

„Gestirnir voru óþreytandi, hrikalega duglegir og viljugir, óðu í öll fráköst og tóku þau flest. Þeir unnu frákastabaráttuna, 49-30, og tóku fimmtán sóknarfráköst,“ segir Ingvi Þór Sæmundsson, íþróttafréttamaður á Vísi, í umfjöllun um leikinn.

Um Þórsarana segir Ingvi: „Aurrecoechea hefur átt marga góða leiki í vetur en þessi var einn sá besti. Spánverjinn skoraði 29 stig, tók sextán fráköst og hitti úr þrettán af nítján skotum sínum.

Ingvi [Þór Guðmundsson] átti frábærar rispur og er svo sannarlega góð viðbót við Þórsliðið. Hann skoraði 22 stig og setti niður fimm þriggja stiga skot.

Guy Landry Edi var óþreytandi og reif niður ellefu fráköst, Andrius Globys var mikilvægur og Basile stjórnaði sókn Þórs vel auk þess að skora fimmtán stig og gefa átta stoðsendingar.“

Ingvi Þór orðaðar það þannig að Stjörnumenn hafi verið „bakaðir“ í frákastabaráttunni, „en stóru mennirnir þeirra, Hlynur Bæringsson, Austin Brodeur og Tómas Þórður, tóku aðeins þrettán fráköst samtals.“

„Algjör liðssigur“

Bjarki Ármann Oddsson, þjálfari Þórs, var vitaskuld í sjöunda himni eftir leikinn. „Strákarnir stóðu sig frábærlega og þetta var algjör liðssigur. Það er gaman að Ingvi skori 22 stig og þjálfarann sem vildi hann ekki er uppi í stúku. Þetta sýnir hversu frábær leikmaður hann er og guðsgjöf fyrir Þór,“ sagði Bjarki, og vísaði með ummælum sínum til Israel Martin, þjálfara Hauka, sem eru neðstir í deildinni, en þeir taka á móti Þórsurum á sunnudaginn.

Eftir að Þórsarar komust yfir í leiknum, segist Bjarki hafa verið sannfærður um sigur. „Við vitum að Stjarnan rúllar mikið og getur misst taktinn. Ég sagði strákunum að halda einbeitingu, það skipti ekki máli þótt við værum að tapa með tíu stigum, við kæmum alltaf til baka. Um leið og við komumst yfir fundu strákarnir að þetta væri komið. Mér fannst við vera betra liðið í dag. Þeir söknuðu örugglega Alexanders Lindqvist sem er búinn að spila frábærlega fyrir þá,“ sagði Bjarki við Vísi.

Hann var virkilega sáttur með liðsheild Þórsara í kvöld og sagðir að allir sem komu við sögu í leiknum hafi lagt í púkkið.

„Guy [Landry Edi] stóð sig frábærlega í því sem hann á að gera, Ivan [Aurrecoechea] auðvitað stórkostlegur eins og alltaf, Andrius [Globys] er límið í liðinu, Dedrick [Basile] sprengir upp varnirnar, Srdjan [Stojanovic] var stórkostlegur þótt hann hafi ekki hitt. Strákarnir sem komu af bekknum, Hlynur [Freyr Einarsson] og Raggi [Ágústsson] lögðu sitt af mörkum,“ sagði Bjarki hæstánægður við Vísi.

  • Ivan Aurrecoechea Alcolado 29 stig – 16 fráköst (36:24 mín.)
  • Ingvi Þór Guðmundsson 22 stig – 5 fráköst – 3 stoðsendingar (29:11)
  • Dedrick Deon Basile 15 stig – 5 fráköst – 8 stoðsendingar (36:09)
  • Andrius Globys 11 stig – 5 fráköst (28:27)
  • Ohouo Guy Landry Edi 8 stig – 11 fráköst – 4 stoðsendingar (29:41)
  • Srdan Stojanovic 6 stig – 2 fráköst – 1 stoðsending (23:49)
  • Hlynur Freyr Einarsson 2 fráköst (11:35)
  • Ragnar Ágústsson (4:44)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun á Vísi.