Fara í efni
Íþróttir

Frábær frammistaða í seinni hálfleik

Martha Hermannsdóttir hefur bikarinn á loft í Framheimilinu í dag. Ljósmynd: HSÍ.

Frábær frammistaða í seinni hálfleik gegn Fram í dag tryggði stelpunum í KA/Þór jafntefli, 27:27, og þar með deildarmeistaratitilinn í handbolta. Leikið var í Framheimilinu.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínútur leiksins, Framstelpurnar yfirleitt skrefi á undan en þær tóku svo góðan sprett á síðustu mínútunum og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17:12.

Á upphafskafla seinni hálfleiksins minnkaði KA/Þór muninn jafnt og þétt, staðan var orðin 18:16 eftir sjö mínútur og Stelpurnar okkar jöfnuðu, 24:24, þegar tæpar 10 mínútur voru eftir; Ásdís Guðmundsdóttir skoraði þá úr víti. Framarar höfðu þá haft forystu síðan staðan var 5:5 á 10. mínútu.

Mjög sterkur varnarleikur hefur einkennt lið KA/Þórs í vetur en vörnin náði sér engan vegin á strik í fyrri hálfleik og Matea Lonac varði ekki nema eitt skot. Annað var upp á teningnum í seinni hálfleik, vörnin miklu betri – þótt Fram gerði reyndar fleiri mörk en í fyrri hálfleiknum – og þessi magnaða liðsheild sýndi hvað í henni býr. Í sókninni fóru bæði Rakel Sara Elvarsdóttir og Rut Jónsdóttir á kostum, Rakel Sara var 100% skotnýtingu, gerði 9 mörk úr jafn mörgum skotum og Rut gerði 8 mörk og gaf fjórar stoðsendingar.

Mörk KA/Þórs í dag: Rakel Sara Elvarsdóttir 9, Rut Jónsdóttir 8 (1 víti), Ásdís Guðmundsdóttir 4 (2 víti), Hulda Bryndís Tryggvadóttir 3, Anna Þyrí Halldórsdóttir 2 og Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.

Matea Lonac varði 7 skot.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna

Deildarmeistararnir í handbolta kvenna 2021 - lið Þórs/KA. Ljósmynd: HSÍ.