Fara í efni
Íþróttir

Frábær félagsskapur og mögnuð stemning

Í banastuði í Búdapest í dag. Frá vinstri: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður, Ólafur Gís…
Í banastuði í Búdapest í dag. Frá vinstri: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður, Ólafur Gísli Hilmarsson, Kristinn Hreinsson, Baldur Guðnason og Kristján Arason, fyrrverandi landsliðskempa og eiginmaður Þorgerðar Katrínar.

Tugir Akureyringa eru í Búdapest til þess að fylgjast með Evrópumóti landsliða í handbolta. Íslendingar hefja keppni klukkan 19.30 í kvöld þegar flautað verður til viðureignar þeirra við Portúgal.

Kristinn Hreinsson, fyrrverandi handboltakempa, er einn Akureyringanna. Þetta er í sjötta skipti sem Kristinn fylgist með íslenska liðinu á stórmóti. Hann var í góðum gír í stórum hópi Íslendinga á veitingastað í ungversku höfuðborginni þegar Akureyri.net ræddi við hann síðdegis.

„Í fyrsta lagi þá hreinlega elska ég handbolta,“ sagði Kristinn, spurður um ástæðu þess að hann færi hvað eftir annað utan til að styðja við bakið á liðinu. „Félagsskapurinn er alltaf frábær í þessum ferðum og stemningin mögnuð – ég hef kynnst ótrúlega mörgu góðu fólki í þessum ferðum og svo má auðvitað ekki gleyma því að maður hefur farið til margra landa og kynnst fjölda skemmtilegra borga,“ sagði Kristinn. 

Stundum hafa þeir verið margir saman á mótunum en nú tóku þeir sig til, Kristinn og Ólafur Gísli Hilmarsson, sem lengi léku saman með Þór á árum áður, og drifu sig til Ungverjalands.

Fjöldi Akureyringa er í Búdapest, sem fyrr segir, meðal annars er handboltalið KA þar í æfingaferð og verða KA-strákarnir að sjálfsögðu í íþróttahöllinni í kvöld.

Ólafur Gísli Hilmarsson og hjónin Bjarni Bjarnason og Fríður Gunnarsdóttir í Búdapest í dag. 

Handboltalið KA í Búdapest, þar sem það er í æfingaferð og fylgdist með EM. Myndin birtist á Facebook síðu KA. 

Kristinn Hreinsson og Elís Sigurðsson, faðir Bjarka Más Elíssonar, landsliðsmanns; að sjálfsögðu með hárband eins og sonurinn leikur jafnan með!

Geir Kristinn Aðalsteinsson, fyrrverandi handboltakappi og núverandi formaður Íþróttabandalags Akureyrar, og Kristján Arason í Búdapest í dag.