Fara í efni
Íþróttir

Fótbolti í Boganum, körfubolti í Höllinni

Tveir leikir eru á dagskrá akureyrskra íþróttamanna í dag; Þór/KA - Breiðablik í Lengjubikarkeppni kvenna í fótbolta í Boganum og Þór - Grindavík í Domino's deild Íslandsmót karla í körfubolta.

Þór/KA hefur unnið báða leikina til þessa í Lengjubikarkeppninni, gegn Tindastóli og FH, en Blikar burstuðu Stjörnuna og gerðu jafntefli við Fylki. Leikur Þórs/KA og Breiðabliks hefst klukkan 15.30 og verður sýndur ókeypis á Þór TV, smellið hér til að horfa.

Ókeypis er inn á leikinn, 150 manns verður hleypt inn og börnum á grunnskólaaldri að auki. Athugið að ekki er gengið inn í Bogann á hefðbundnum stað í dag, heldur af bílastæðinu austan við Bogann. Sjá mynd neðst í fréttinni.

Leikur Þórs og Grindavíkur í körfuboltanum hefst klukkan 19.15 í íþróttahöllinni. Loksins mega áhorfendur mæta á leiki körfuboltaliðsins á ný, alls verður 200 manns hleypt í húsið. Leikurinn er Þórsurum gríðarlega mikilvægur, eins og allir héðan í frá vegna þess að liðið er í næst neðsta sæti deildarinnar og þarf nauðsynlega á sigri að halda. 

Fyrir þá sem ekki fá miða á leikinn má benda á að hann verður sýndur beint á Þór TV. Smellið hér til að horfa, það kostar 1000 krónur.