Fara í efni
Íþróttir

Flestum íþróttaleikjum dagsins frestað

Búið er að fresta mörgum þeirra íþróttaleikja sem fyrirhugaðir voru í dag hjá akureyrskum liðum. Þórsarar áttu að mæta Val í Reykjavík í Olís deild karla í handbolta, blakstelpurnar í KA áttu að spila við Þrótt í Reykjavík og von var á KR-ingum norður til að spila við Þór í Domino's deild karla í körfubolta í kvöld. Þessum leikjum hefur öllum verið frestað, enda Öxnadalsheiðin enn ófær.

Ekki hafa fengist upplýsingar um fyrirhugaðan leik íshokkíliðs SA Víkinga gegn Fjölni í Reykjavík, en gera verður ráð fyrir að honum verði einnig frestað.

Nokkrir leikir áttu að fara fram í dag í Kjarnafæðismótinu í fótbolta í Boganum; viðureign karlaliða Völsungs og Magna hefur verið frestað, svo og leik Tindastóls gegn Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í kvennaflokki.

UPPFÆRT
Þór - KR í Domino's deildinni í körfubolta verður annað kvöld, mánudagskvöld klukkan 19.15

Valur - Þór í Olís deild karla í handbolta verður annað kvöld klukkan 18.30

Valur - KA/Þór í Olísdeild kvenna í handbolta verður á þriðjudaginn klukkan 18.30. Hann átti upphaflega að vera í gær en var frestað vegna ófærðar.