Fjörug íþróttavika fram undan að vanda

Að venju verður nóg um að vera fyrir íþróttaáhugafólk í komandi viku, þrír heimaleikir hjá íshokkíliðum SA í komandi viku og fyrsti leikur Þórs/KA í neðri hluta Bestu deildarinnar í knattspyrnu. Handboltaliðin þrjú leika á útivelli sem og lið KA í Bestu deild karla í knattspyrnu.
ÞRIÐJUDAGUR 23. SEPTEMBER - íshokkí
Jötnar, ungmennalið SA, mætti liði SR í Skautahöllinni í Reykjavík um liðna helgi og tapaði með einu marki, 3-4. Ormur Jónsson skoraði tvö mörk Jötna og Aron Ingason eitt. Arnar Kristjánsson, Robbe Delport og Bjarmi Kristjánsson áttu eina stoðsendingu hver.
Nú er komið að því að taka á móti liði Fjölnis, en Jötnar unnu öruggan sigur á Húnum, ungmennaliði Fjölnis í fyrsta leik sínum í forkeppni Toppdeildarinnar.
- Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
Jötnar - Fjölnir
MIÐVIKUDAGUR 24. SEPTEMBER - handbolti
KA/Þór hefur farið vel af stað í Olísdeildinni í haust, eftir eins árs fjarveru úr efstu deild, unnið báða leiki sína til þessa, gegn ÍBV og Stjörnunni. Nú er komið að fyrsta útileiknum, Selfyssingar sóttir heim á miðvikudag.
- Olísdeild kvenna í handknattleik
Sethöllin á Selfossi kl. 18:30
Selfoss - KA/Þór
KA/Þór er í 2. sæti deildarinnar eftir tvær umferðir, með fjögur stig eins og ÍR, en ÍR-ingar eru með betri markamun. Selfyssingar hafa hins vegar tapað báðum leikjum sínum til þessa og sitja í botnsætinu.
FIMMTUDAGUR 25. SEPTEMBER - fótbolti
Eins og áður hefur komið fram seig Þór/KA niður í neðri hluta Bestu deildarinnar á lokakaflanum fyrir tvískiptingu hennar eftir að hafa verið lengi í 4. sætinu. Fram undan eru því gríðarlega mikilvægir leikir gegn liðunum fyrir neðan í baráttu þriggja liða um að forðast fall í 1. deild, Lengjudeildina. Fyrsti leikur liðsins í þessum lokakafla verður gegn Tindastóli í Boganum á fimmtudagskvöld.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, neðri hluti
Boginn kl. 19:15
Þór/KA - Tindastóll
FHL er nú þegar fallið úr Bestu deildinni og sama hlutskipti bíður eins þeirra þriggja liða sem eru í neðri hlutanum ásamt FHL, það eru Þór/KA, Fram og Tindastóll. Að loknum 18 umferðum er Þór/KA í 7. sætinu með 21 stig og tíu mörk í mínus, Fram er í 8. sætinu, einnig með 21 stig, en með 19 mörk í mínus. Tindastóll er svo í 9. sætinu með 17 stig og 22 mörk í mínus. FHL er í neðsta sæti með fjögur stig og getur því ekki náð hinum liðunum.
Þór/KA mætir Tindastóli á heimavelli á fimmtudag, fer síðan austur á Reyðarfjörð og mætir FHL laugardaginn 4. október og tekur á móti Fram í Boganum laugardaginn 11. október í lokaumferðinni.
FÖSTUDAGUR 26. SEPTEMBER - handbolti
Karlalið KA í handboltanum er í 9. sæti Olísdeildarinnar að loknum þremur umferðum. KA hefur unnið einn leik, en tapað tveimur, og sækir HK heim í Kórinn í 4. umferðinni.
- Olísdeild karla í handknattleik
Kórinn í Kópavogi kl. 19:30
HK - KA
HK endaði í 10. sæti í Olísdeildinni í fyrra, þremur stigum frá fallsæti, og náði einmitt þremur stigum út úr viðureignum sínum við KA í Olísdeildinni í fyrra. HK vann viðureign liðanna á Akureyri með eins marks mun, en jafntefli varð í heimaleik HK í Kórnum. HK hefur hins vegar tapað fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni núna í haust og situr á botninum.
LAUGARDAGUR 27. SEPTEMBER - handbolti, íshokkí
Karlalið Þórs í handboltanum situr sæti ofar en KA að loknum þremur umferðum, með einn sigur og tvö töp eins og nágrannarnir. Á laugardag er komið að heimsókn til Vestmannaeyja. Þau tíðindi urðu á mánudagskvöld að Þórsarar tryggðu sér þjónustu Eyjapeyjans Kára Kristjáns Kristjánssonar, fyrrverandi landsliðsmanns, út leiktíðina. Fyrsti leikur hans með Þór verður því gegn uppeldisfélaginu í Eyjum á laugardag.
- Olísdeild karla í handknattleik
Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja kl. 16
ÍBV - Þór
ÍBV hefur unnið tvo leiki af fyrstu þremur og situr í 6. sætinu með fjögur stig, Þór er í 8. sæti með tvö stig.
- - -
Það verður áhugaverð viðureign í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri á laugardag. Kvennalið SA tekur þá á móti SR í Toppdeildinni, en eins og fram hefur komið í fréttum á Akureyri.net hafa nokkrar öflugar íshokkíkonur frá Akureyri fært sig um set á milli Reykjavíkurliðanna, frá Fjölni til SR.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - SR
Bæði þessi lið hafa mætt Fjölni í fyrstu leikjum haustsins. SA vann Fjölni 5-0 á útivelli og SR vann sinn leik 3-1 á heimavelli.
SUNNUDAGUR 28. SEPTEMBER - fótbolti, íshokkí
KA byrjaði á sigri í fyrsta leik í neðri hluta Bestu deildar karla í knattspyrnu eftir tvískiptingu deildarinnar og er efst liða í neðri hlutanum með 32 stig að loknum 23 umferðum. KA mætir Aftureldingu á útivelli í næstu umferð, þá Vestra og ÍA heima, en endar á útileik gegn ÍBV í Vestmannaeyjum.
- Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
Varmárvöllur kl. 16
Afturelding - KA
Afturelding hefur sigið hægt og bítandi niður töfluna undanfarnar vikur og situr nú í neðsta sætinu með 22 stig. KA vann heimaleikinn gegn Aftureldingu í deildinni í sumar, 1-0, en liðin gerðu 3-3 jafntefli í Mosfellsbænum.
- - -
Forkeppni Toppdeildar karla í íshokkí stendur fram í byrjun október og mætast þá meistaraflokkslið SA, SR og Fjölnis, ásamt ungmennaliðum SA og Fjölnis, Jötnum og Húnum, í einfaldri umferð. Næsta sunnudag er komið að SA að taka á móti Húnum.
- Toppdeild karla í íshokkí, forkeppni
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - Húnar
Húnar hafa átt á brattan að sækja í leikjum sínum hingað til, en SA hefur spilað einn leik, vann Fjölni 5-4 á útivelli í fyrsta leik sínum.