Fara í efni
Íþróttir

Fjöldi fólks tók á móti meisturunum

Mikil stemning var á Akureyrarflugvelli þegar deildarmeistararnir komu norður með bikarinn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Fjölmenni var á Akureyrarflugvelli þegar nýbakaðir deildarmeistarar kvenna í handbolta, leikmenn KA/Þórs og þjálfarar liðsins, komu norður með bikarinn undir kvöld. Stelpunum var fagnað innilega og áttu það sannarlega skilið eftir glæsilegan árangur í vetur. Í haust unnu þær Fram í leik um titilinn Meistari meistaranna og í dag tryggðu leikmenn KA/Þórs sér deildarmeistaratitilinn með því að gera jafntefli við Fram í síðustu umferð deildarinnar.

Bæði lið sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og mæta til leiks á ný í undanúrslitum eftir hálfan mánuð. Og markmiðið hjá liði KA/Þórs er ekkert launungarmál: „Markmiðið er að sjálfsögðu að liðið verði Íslandsmeistari,“ sagði Rut Jónsdóttir við Akureyri.net. Hún gekk til liðs við Akureyrarliðið fyrir keppnistímabilð og hefur reynst mikill hvalreki; frábær leikmaður og margreyndur, sem hefur að öðrum ólöstuðum verið best allra í Olísdeild kvenna í vetur.