Fara í efni
Íþróttir

Fjögur frækin hlutu heiðursviðurkenningu

Heiðursviðurkenningar! Frá vinstri: Sigríður Jóhannsdóttir, Þormóður Einarsson, Herbert Bárður Jónss…
Heiðursviðurkenningar! Frá vinstri: Sigríður Jóhannsdóttir, Þormóður Einarsson, Herbert Bárður Jónsson og Páll Jóhannesson. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Fjórir hlutu heiðursviðurkenningu fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar á samkomunni í Hofi í dag þar sem kjöri íþróttafólks ársins í bænum var lýst. Þetta eru Herbert Bárður Jónsson, Páll Jóhannesson, Sigríður Jóhannsdóttir og Þormóður Einarsson.

Þegar fjórmenningarnir voru kynntir kom þetta meðal annars fram:

Herbert Bárður Jónsson er fæddur 13. desember 1936 og hefur frá unga aldri sett mark sitt á starf Íþróttafélagsins Þórs. Rétt fyrir árið 1960 var Herbert kjörinn í aðalstjórn Þórs og sat þar í mörg ár, m.a. sem hægri hönd formanns til ársins 1980. Í stjórn Þórs vann hann m.a. ötullega að málefnum körfuboltans og handboltans hjá Þór þegar þessar greinar voru að slíta barnsskónum í félaginu.

Eftir að Herbert sagði sig frá stjórnarstörfum var hann áfram fyrirferðarmikill í störfum fyrir félagið, t.d. sá hann um öfluga getraunaþjónustu félagsins í mörg ár.

Herbert er enn í dag nánast daglegur gestur í Hamri, félagsheimili Þórs þar sem hann leggur sitt af mörkum til félagsins.

Fyrir óteljandi verkefni, hjarta og sál í þágu íþróttahreyfingarinnar á Akureyri og Íþróttafélagsins Þórs hefur Herbert verið veitt gullmerki Þórs, gullmerki ÍSÍ, silfurmerki ÍBA og heiðursfélaganafnbót Þórs.

Páll Jóhannesson er fæddur 13. febrúar 1958. Páll lét strax til sín taka sem foreldri í starfi Þórs og spurði ekki hvað félagið gæti gert fyrir hann, heldur hvað hann gæti gert fyrir félagið. Páll sat í stjórn félagsins í mörg ár og var á tímabili ritari aðalstjórnar Þórs. Hann var ritstjóri heimasíðu Þórs í mörg ár og sá um viðtöl, ljósmyndir, umfjallanir í öllum greinum og aldursflokkum og gerði heimasíðu Þórs að mjög lifandi og öflugum miðli.

Fáir félagsmenn búa yfir eins mikilli þekkingu og vitneskju um sögu Íþróttafélagsins Þórs og Páll, enda er saga félagsins honum hugleikin og er til dæmis ljósmyndasafn hans úr félagsstarfi Þórs dýrmæt heimild um sögu sem var og sögu sem enn er verið að segja. Páll er enn að vinna að verkefnum fyrir félagið sitt og fyrir óeigingjarnt starf í þágu Þórs hefur Páll hlotið gullmerki félagsins

Sigríður Jóhannsdóttir er fædd 26. desember 1963 og lék á sínum yngri árum knattspyrnu með Knattspyrnufélagi Akureyrar. Utan vallar hefur Sigríður gegnt ábyrgðarstörfum fyrir KA í áratugi og m.a. verið gjaldkeri aðalstjórnar í fjölmörg ár samhliða því að vinna ötullega fyrir unglingaráð KA í handbolta. Á árum áður, fyrir tíma rafrænna lausna voru t.d. verkefni gjaldkera félaganna öðruvísi en í dag og hefur Sigríður staðið ótal stundum í KA heimilinu og tekið við æfingagjöldum eða greiðslum fyrir keppnisferðir hvenær sem var sólahringsins.

Sigríður er svo sannarlega áreiðanlegi sjálfboðaliðinn sem vinnur ómetanleg verkefni á bakvið tjöldin í stóru íþróttafélagi og gætir að því að hin fjölmörgu ósýnilegu verkefni séu leyst og unnin öllum til heilla. Fyrir óeigingjarnt starf í þágu KA hefur Sigríður hlotið gullmerki félagsins.

Þormóður Einarsson er fæddur 14. nóvember árið 1943 og hefur nánast frá fæðingu verið tengdur Knattspyrnufélagi Akureyrar sterkum böndum. Þormóður lék knattspyrnu með ÍBA og seinna meir með KA við góðan orðstír og var m.a. fyrirliði KA sem fór í fyrsta skipti upp í efstu deild.

Þormóður var fyrsti formaður knattspyrnudeildar KA á sama tíma og hann var leikmaður og fyrirliði liðsins. Eiginkona hans, Elínborg Árnadóttir þvoði búningana af öllum flokkum félagsins. Síðar var Þormóður um skeið framkvæmdastjóri KA.

Handlaginn og bóngóður hefur Þormóður látið KA njóta góðs af sínum kröftum í gegnum árin í fjölmörgum verkefnum sem drifið hafa á daga félagsins. Um margra ára bil fór ekki fram sá handboltaleikur hjá KA nema að Þormóður væri tímavörður eða ritari í sjálfboðastarfi. Fyrir óþrjótandi starf í þágu Knattspyrnufélags Akureyrar og íþróttahreyfingarinnar á Akureyri hefur Þormóður hlotið gullmerki KA, gullmerki KSÍ, heiðursmerki HSÍ og verið sæmdur heiðursfélaganafnbót KA.