Fara í efni
Íþróttir

FH lánar Daða Frey til Þórs í sumar

Daði Freyr Arnarsson í leik með FH gegn KA á Akureyrarvelli sumarið 2019. Ljósmynd: Skapti Hallgríms…
Daði Freyr Arnarsson í leik með FH gegn KA á Akureyrarvelli sumarið 2019. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Daði Freyr Arnarsson, markvörður hjá FH, verður á mála hjá Þórsurum í sumar. Félögin sömdu um það í kvöld. Daði, sem er 22 ára, stóð í marki FH í 15 leikjum sumarið 2019 en var lítið með í fyrra. Hann framlengdi samning sinn við FH til tveggja ára í dag og síðan var gengið frá lánssamningi.

Aron Birkir Stefánsson, aðalmarkvörður Þórs, er meiddur og verður hugsanlega ekkert með í sumar og Auðunn Ingi Valtýsson, ungur og bráðefnilegur markvörður Þórsara, meiddist líka á dögunum. Fannar Hafsteinsson, fyrrverandi unglingalandsliðsmaður úr KA, sem hafði ekki leikið síðan 2016, stóð í marki Þórs í bikarleik gegn Magna í síðustu viku.

Fyrsti leikur Þórs á Íslandsmótinu er á föstudaginn gegn Gróttu á Seltjarnarnesi.