Fara í efni
Íþróttir

Fellt að takmarka fjölda útlendinga

Ivan Aurrecoechea Alcolado, fyrir miðri mynd, hefur verið frábær með Þór. Fimm útlendingar eru í herbúðum félagsins í vetur. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Tillaga um reglugerðabreytingu í þá veru að ákveðinn fjöldi íslenskra leikmanna yrði að vera innan vallar hverju sinni – í raun til þess að takmarka fjölda útlendinga – var felld á ársþingi Körfuknattleikssambands Íslands í dag. Valur, Stjarnan, KR og Haukar báru tillöguna upp en skv. vefnum karfan.is var hún felld með 54 atkvæðum gegn 33.

„Mikil og lífleg umræða var um þetta mál. Ekki virðist vera mikil samstaða í hreyfingunni um hvernig þessu skuli háttað en margir þingfulltrúar lýstu sig reiðubúna til að ræða og þróa áfram umræðuna. Það er síðan spurning um lögmæti breytinga af þessu tagi, hvort þær standist Evrópureglugerðir,“ segir í frétt á vefnum karfan.is

Þar segir: „Tillagan fjallar í stuttu máli um það að auka vægi íslenskra leikmanna í efstu deildum með því að setja reglur um fjölda íslenskra leikmanna inni á vellinum hverju sinni. Það mátti sjá á umræðunni að þeir sem töluðu fyrir og voru sammála tillögunni voru frá liðum á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem voru á móti og töðuðu gegn henni frá liðum á landsbyggðinni.“

Fulltrúar liða utan höfuðborgarsvæðisins bentu á að erfitt hafi reynst að fá íslenska leikmenn og því sé mikilvægt að hafa þann valkost að geta fengið inn erlenda leikmenn. „Einnig var bent á það að kostnaður vegna erlendra leikmanna væri ekki endilega meiri en af því að fá íslenska leikmenn. Það var líka bent á það að þeir sem séu nógu góðir fái að spila, að samkeppni sé af hinu góða og ungir leikmenn eigi jafn mikla möguleika og aðrir að komast í lið. Það sé ekki skylda að fylla lið af erlendum leikmönnum, félögin hafi það eins og þeim sé fyrir bestu, bæði rekstrarlega og félagslega,“ segir í fréttinni.

Smellu hér til að lesa nánar um málið og um ársþingið á karfan.is