Fara í efni
Íþróttir

Evrópuævintýri KA strákanna lokið í ár

Steinþór Már Auðunsson stóð í marki KA í kvöld og þrátt fyrir að belgíska gerði fimm mörk lék hann mjög vel og kom í veg fyrir að munurinn yrði enn meiri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Evrópuævintýri KA -manna lauk á Laugardalsvelli í kvöld þegar þeir töpuðu 5:1 fyrir belgíska liðinu Club Brugge. Þetta var síðari viðureign liðanna í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar í knattspyrnu, úrslit þeirrar fyrri í Belgíu fyrir viku voru þau sömu svo belgíska liðið vann 10:2 samanlagt.

Það var Færeyringurinn Pætur Petersen sem skoraði fyrir KA í kvöld; minnkaði muninn í 3:1 á 59. mínútu. Harley Willard sendi boltann á Elfar Árna Aðalsteinsson sem var við vítateigslínuna, hann sendi laglega aftur fyrir sig með hælnum þar sem Pétur var grimmari en nálægur varnarmaður og þrumaði boltanum þegar í stað í hægra horn marksins frá vítateig; skotið var stórglæsilegt og algjörlega óverjandi fyrir Simon Mignolet markvörð.

Harley Willard, með boltann, Rodri og Ingimar í leiknum gegn Club Brugge á Laugardalsvelli í kvöld. Ljósmynd: Arnþór

Í stuttu máli má segja að belgíska liðið var mun betra, eins og reikna mátti með og tölurnar gefa til kynna. Gestirnir hefðu reyndar getað skorað enn meira en Steinþór Már Auðunsson, sem fékk tækifæri í marki KA í stað Kristijans Jajalo, varði nokkrum sinnum mjög vel og verður alls ekki sakaður um mörkin.

Belgarnir gerðu fyrsta markið strax á sjöundu mínútu. Denis Odoi var óvaldaður á markteignum þegar boltinn var sendur þangað, skallaði fast að marki og Steinþór Már varði glæsilega. Dedryck Boyata var hins vegar fljótastur að átta sig og skoraði auðveldlega.

Á lokasekúndum fyrri hálfeiks kom Michael Skóras gestunum í 2:0 með glæsilegu skoti utan úr teig eftir horn.

Roman Yaremchuk gerði þriðja mark Brugge fljótlega í seinni hálfleik, Petersen minnkaði muninn sem fyrr segir, en ekki leið á löngu þar til Yaremchuk skoraði aftur. Hann gerði svo þriðja mark sitt, og fimmta mark belgíska liðsins, á 75. mín.

Alex Freyr Elísson með boltann í leiknum gegn Club Brugge í kvöld. Ljósmynd: Arnþór

Í blálok leiksins var KA-maðurinn Jóan Ed­munds­son rekinn af velli; var óheppinn að traðka ofan á rist eins mótherjans og dómarinn sýndi honum gula spjaldið. Færeyingurinn, sem kom af varamannabekknum á 71. mínútu, hafði illu heillu verið sýnt gula spjaldið fjótlega eftir að kom inn á fyrir að toga hraustlega í treyju eins andstæðingsins.

Lið KA: Steinþór Már Auðunsson – Alex Freyr Elísson (Hrannar Björn Steingrímsson 71.), Rodrigo Gómez, Ívar Örn Árnason, Ingimar Torbjörnsson Stöle – Hallgrímur Mar Steingrímsson (Sveinn Margeir Hauksson 83.), Daníel Hafsteinsson (Valdimar Logi Sævarsson 83.), Harley Willard (Jóan Símun Edmundsson 71) – Jakob Snær Árnason (Ásgeir Sigurgeirsson 62.), Elfar Árni Aðalsteinsson, Pætur Petersen.