Fara í efni
Íþróttir

Erfitt kvöld hjá Þór gegn FH í Kaplakrika

Arnar Þór Fylkisson, sem þarna fylgist með leikmanni Aftureldingar í furðulegu aðflugi í síðasta lei…
Arnar Þór Fylkisson, sem þarna fylgist með leikmanni Aftureldingar í furðulegu aðflugi í síðasta leik, varði 11 skot í Hafnarfirði í kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Kvöldstund í Kaplakrika reyndist Þórsurum erfið áðan, þegar þeir sóttu FH-inga heim í Olísdeild Íslandsmótsins í handbolta. Hafnarfjarðarliðið sigraði 30:21 eftir að staðan var 18:10 í hálfleik. FH er í öðru sæti deildarinnar með 17 stig en Þórsarar enn með fjögur stig í 11. og næst neðsta sæti.

Þórsarar byrjuðu reyndar vel en eftir að staðan var 6:6 gerðu FH-ingar fimm mörk í röð og þar með ljóst í hvað stefndi. „Við byrjum alltaf vel en svo dettum við niður. Ég get kannski ekki gefið neina skýringu á því en þetta er bara eitthvað sem við þurfum að laga,“ sagði Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs, í samtali við Vísi að leikslokum.

Hann var mun sáttari með varnarleik Þórs í seinni hálfleik en þeim fyrri. „Við vorum lengi í gang í vörninni. Það voru greinilega skýr skilaboð hjá FH-ingum að keyra á okkur og þeir gerðu það vel. Það drap okkur svolítið í fyrri hálfleik. En í þeim seinni stóðum við vörnina mjög vel og komum með áhlaup en það dugði ekki til,“ sagði Halldór en Þór fékk aðeins á sig tólf mörk í seinni hálfleik eftir að hafa fengið á sig átján í þeim fyrri.

„Drengirnir fá gott frí um helgina eftir mikið álag. Svo byrjum við bara aftur á mánudaginn og fáum góða æfingaviku,“ sagði Halldór. „Við ætlum að koma sterkir til baka í næsta leik sem er gegn ÍR heima,“ sagði Halldór við Vísi.

Mörk Þórs í kvöld gerðu: Ihor Kopyshynskyi 6/2, Karolis Stropus 6, Þórður Tandri Ágústsson 5, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Sigurður Kristófer Skjaldarson 1, Arnór Þorri Þorsteinsson 1. Varin skot: Arnar Þór Fylkisson 11 og Jovan Kukobat 5.

Smellið hér til að lesa ítarlega umfjöllun á Vísi.

Öll tölfræði leiksins